Endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:03:01 (2987)

2003-12-10 11:03:01# 130. lþ. 46.2 fundur 262. mál: #A endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Varðandi þá starfsemi sem hér er fjallað um, endurhæfingu krabbameinssjúklinga, er mjög mikilvægt að horfa til framtíðar og með tilliti til áframhaldandi uppbyggingar. En það verður að hafa þá sýn ljósa hið fyrsta. Það má ekki koma til að vegna skipulagsbreytinga innan Landspítala -- háskólasjúkrahúss séu að koma upp hugmyndir um að færa þessa starfsemi inn á yfirfyllta Grensásdeildina eins og komið hefur fram. Það verður að hugsa til þess að þeir einstaklingar sem fá þjónustu á endurhæfingardeildum þurfa vegna síns sjúkdóms ákveðið umhverfi og það umhverfi hafa þeir í Kópavoginum. Ég vil minna á að þarna er göngudeild. Þarna er líknardeild. Það stóð til að opna þarna dagdeild sem því miður var hætt við að opna. Það var opnuð húðdeild í staðinn. Ég tel að það væri mikill sómi að því ef hæstv. heilbrrh. beitti sér fyrir því að þær byggingar sem (Forseti hringir.) enn standa þarna uppi og tilheyrðu gamla Kópavogshælinu verði nýttar sem framtíðarhúsnæði fyrir samhæfða endurhæfingu og þjálfun fyrir krabbameinssjúklinga.