Endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:05:34 (2989)

2003-12-10 11:05:34# 130. lþ. 46.2 fundur 262. mál: #A endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:05]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls en einnig hæstv. ráðherra fyrir viðhorf hans í garð þeirrar starfsemi sem er á göngudeild fyrir krabbameinssjúklinga í Kópavogi. Reyndar hefur líka komið fram í störfum hans jákvæðni gagnvart þessari starfsemi og uppbyggingu hennar. En ég verð að viðurkenna að miðað við þær fjárveitingar sem Landspítali -- háskólasjúkrahús fær í rekstur á næsta ári þá óttast ég að þarna verði skorið niður. Tiltölulega lítið fjármagn hefur farið í þessa afmörkuðu frumkvöðlastarfsemi eins merkileg og hún er.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að það er aukin tíðni krabbameina bæði hér á landi og erlendis. En við búum líka við auknar lífslíkur. Þeir sem fá þennan sjúkdóm eru miklu betur settir í nú en var bara fyrir örfáum árum. Hins vegar kalla erfiðleikarnir við að takast á við sjúkdóminn, við breytta sjálfsmynd og allt sem erfiðri lyfjameðferð, geislameðferð, fylgir á endurhæfingu, eins og hér kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller. Það kallar á endurhæfingu, ekki bara þessa líkamlegu heldur líka andlega uppbyggingu og þjálfun í því að taka þátt í samfélaginu aftur með breytta sjálfsmynd og í breyttu umhverfi.

Ég treysti því að hæstv. ráðherra sem hefur verið þessari starfsemi afar velviljaður leggi sitt lóð á vogarskálar starfseminnar þannig að hún megi vaxa og dafna. Umhverfi hennar í Kópavogi skiptir afar miklu máli. Yndislegt umhverfi endurhæfingardeildarinnar skiptir mjög miklu máli fyrir þann hluta iðjuþjálfunar sem fer fram utan dyra.