Fjárflutningar

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:13:54 (2992)

2003-12-10 11:13:54# 130. lþ. 46.4 fundur 415. mál: #A fjárflutningar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:13]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég er með spurningar til hæstv. landbrh. í framhaldi af því að hann hefur beitt sér svo mjög fyrir fækkun sláturhúsa í landinu. Það hefur Framsfl. gert ásamt Sjálfstfl. með svokallaðri ríkishagræðingu í landbúnaði og varið til þess a.m.k. 170 millj. kr. af almannafé í fjáraukalögum þessa árs. Stendur til að verja meira fjármagni til þessa verkefnis? Í framhaldi af því spyr ég:

1. Hversu háa styrki er Byggðastofnun ætlað að veita sláturleyfishöfum til kaupa á nútímalegri fjárflutningatækjum, sbr. tilmæli ríkisstjórnar til Byggðastofnunar?

2. Munu aðrir en sláturleyfishafar geta sótt um slíka styrki?

Nú hafa fleiri en sláturleyfishafar séð um flutninga og þess vegna væri fróðlegt að vita hvort þeir geti einnig sótt um styrki til Byggðastofnunar.

Herra forseti. Þetta ráðslag ríkisstjórnarinnar gefur til kynna að enn ríki svonefndur sovétkúltúr á fleiri sviðum en á sviði olíuviðskipta. Hvaða hagræðing er í því að slátra öllu fé í svokölluðum útflutningssláturhúsum þar sem kostnaður við slátrun er hærri vegna þess að þau þurfa að yfirstíga ýmsar kröfur sem eru í raun ekkert annað en viðskiptahindranir?

Einn mjög slæmur fylgifiskur fækkunar sláturhúsa er mikil hætta á illri meðferð dýra. Ég hef fengið það staðfest hjá bændum að kjöt hefur verið verðfellt vegna þess að það hefur verið marið og illa farið eftir 12--14 tíma ferðalag landshorna á milli. Ætli hæstv. landbrh. hafi ekkert hugað að meðferð dýra þegar hann tók ákvörðun um fækkun sláturhúsa? Því spyr ég hann eftirfarandi spurninga:

3. Hversu mörg lömb drápust á leið til sláturhúsa í sláturtíðinni árin 2000, 2001, 2002 og 2003?

4. Þurfa þeir sem flytja sláturfé landshorna á milli að afla sér starfsleyfis?

5. Eru fjárflutningavagnar skoðaðir og ákveðinn hámarksfjöldi dýra sem flytja má í einu?

6. Hversu margar úttektir voru gerðar á fjárflutningavögnum í síðustu sláturtíð og hversu margar athugasemdir voru gerðar við þá?

7. Eru gerðar kröfur um að brynna sauðfé sem tekur lengur en átta tíma að flytja til slátrunar?

8. Hvernig er háttað eftirliti með flutningi sláturfjár að öðru leyti?

Ég vonast til þess að fá að heyra skýr svör frá hæstv. ráðherra og ef hann telur að pottur sé brotinn í þessum málum vona ég að hann tali skýrt um það hvernig hann hyggst bæta ástandið. Hér er um mikilvægt dýraverndarmál að ræða og skiptir það einnig miklu máli fyrir ímynd sauðfjárræktar í landinu.