Fjárflutningar

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:25:04 (2996)

2003-12-10 11:25:04# 130. lþ. 46.4 fundur 415. mál: #A fjárflutningar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:25]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Herra forseti. Það kom fram í máli hæstv. landbrh. að hann bæri litla ábyrgð á fækkun sláturhúsa, þetta væri vegna Evróputilskipana. Það ber þá að segja frá því að í Evrópusambandinu er heimilt að slátra heima. Ég get ekki séð að það fái staðist að hæstv. landbrh. skýli sér á bak við einhverjar tilskipanir Evrópusambandsins. (ÖS: Hann er Evrópusinni að verða.) Já.

En málið er að reglur sem fjalla um flutning á búfé til slátrunar eru orðnar mjög gamlar, frá 1958, og síðan var endurbót 1968. Þær eru þá 45 og 35 ára gamlar og það er löngu orðið tímabært að endurskoða þær, sérstaklega í ljósi þess að sú stjórn sem hér ríkir hefur staðið fyrir ríkishagræðingu og fækkun sláturhúsa. Mér er óskiljanlegt að menn skuli ekki hugsa fyrir því að búfé sé þá flutt lengri leið og það þurfi að huga að flutningi þess með öðrum hætti en gert hefur verið.

Ég hef skýrslur frá bónda, meira að segja frá Vestfjörðum, og þar kemur fram að tíundi hluti skepnanna hefur meiðst á leið til slátrunar. Þó að hæstv. landbrh. hafi ekki getað aflað sér neinna gagna um hversu illa er farið með fé er deginum ljósara að það þurfa að fara fram endurbætur á þessum reglum.

Hvað varðar það að þetta sé verkefni á sviði umhvrh. er það ekki alveg ljóst vegna þess að lög um búfjárhald segja að landbrh. hafi á hendi yfirstjórn þeirra mála er lúta að meðferð búfjár og eftirliti með búfjárhaldi. Ég get því ekki séð betur en að hæstv. landbrh. beri einnig ábyrgð á þessu.