Fjárflutningar

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:27:18 (2997)

2003-12-10 11:27:18# 130. lþ. 46.4 fundur 415. mál: #A fjárflutningar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég hef engan áhuga á að skjóta mér undan þeirri ábyrgð sem ég ber. Ég vil samt segja hér að ég hygg að hv. þingmenn geti farið á vettvang, heimsótt sláturhúsin og komist að niðurstöðu um það að þar er mikill vilji og vakað vel yfir dýraverndinni og gerðar heilmiklar kröfur til flutningatækjanna og fylgst með því öllu. Ég hygg að þetta sé ekki í neinum stórkostlegum vandræðum þó að ég taki undir það sem hér hefur komið fram. Sjálfsagður hlutur er að halda utan um þessar skráningar, og lítið mál.

Ég hygg að það fari allvel um fé í þessum nýju stóru vögnum sem flytja það til sláturhúsanna. Það er að vísu dálítið sérstakt að við erum að flytja það lengri leið. Samgöngurnar hafa batnað, rekstur sláturhúsanna er mjög erfiður og menn hafa tapað á því. Þau verða gjaldþrota og fara úr rekstri.

Auðvitað er þetta mjög sérstakt, það er verið að setja blessuð litlu lömbin upp á stóran flutningavagn og flytja þau á milli héraða, svona eins og um skemmtiferð væri að ræða, og svo endar það með þessum skelfilega hætti sem við þekkjum, að þau deyja í lok ferðarinnar. (Gripið fram í: Þar sem lömbin þagna.)

Ég þakka þessa umræðu og við umhvrh. erum í góðu samstarfi um þetta, og okkar fólk, og leggjum mikið upp úr dýraverndinni og góðri meðferð dýranna. Þau sláturhús sem ég þekki, og forráðamenn þeirra, gera einnig miklar kröfur, m.a. til farartækjanna. Dýralæknar skoða farartækin, þess vegna eftir hverja ferð. Réttarstjórinn t.d. hjá Sláturfélagi Suðurlands segir mér að hann greini ekki meiri streitu hjá lömbum sem koma langt að en stutt. Þau hvílast yfir nótt. En þetta er auðvitað stórt verkefni og ýmislegt í kringum þetta er í endurskoðun, bæði í mínu ráðuneyti og eins hvað dýraverndina varðar hjá umhvrh. Við munum fylgja því áfram eftir eins og okkur ber að gera.

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu.