Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 13:51:28 (3024)

2003-12-10 13:51:28# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að svara hv. þm. Grétari Mar Jónssyni.

Í 10. gr. fiskveiðistjórnarlaganna er gert ráð fyrir því að hægt sé að færa á milli tegunda allt að 5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks skipsins en þó ekki í þorsk. Hins vegar má ekki færa í eina tegund nema 2% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks skipsins. Það sem verið er að leggja til með greininni er að ráðherra geti lyft þessu 2% þaki þannig að hægt verði að flytja meira í eina tegund en 2% af heildarverðmætinu og geti það þar af leiðandi farið í allt að 5% af heildarverðmætinu.

Þessi takmörkun kom til vegna þess að brögð voru að því að verið var að færa mikið yfir í eina tegund. Það kom fram í karfa og grálúðu á sínum tíma. Núna er staðan hins vegar sú að keila og langa eru í kvóta. Þær koma í mjög mismunandi miklu magni sem meðafli. Til þess að bregðast við því er þessi breyting lögð til.