Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:17:03 (3029)

2003-12-10 14:17:03# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég hef oft haldið því fram sem ég fór yfir hér áðan að það ætti að taka upp ívilnun til þess að koma til móts við kröfur um það að ganga betur um lífríkið og fiskstofnana. Það er ekki verið að gera það í þessu tilfelli.

Ég er ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við þetta mál í dag. Ég fór yfir það hvaða munur væri á þessu frv. og því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti í nefndinni hjá okkur. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það í andsvari, hv. þm. hefur örugglega hlustað áðan.

Mér er það alveg ljóst að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson þarf að ná fram þessu línuívilnunarmáli, því að allt var lagt undir á Vestfjörðum að það yrði gert og ríkisstjórnin fékk nú aldeilis að engjast í málinu í haust þar sem henni var þröngvað áfram til þess að klára það. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að það stæði ekki til að gera neitt í þessu fyrir áramót. Hann hefur greinilega snúið við blaðinu vegna mikils þrýstings.

Það á eftir að fara fram umræða í nefndinni, við eigum eftir að fá yfirferð á því hvernig þetta kemur út og hvernig það sem fylgir með kemur út, því að það er ekki eins og bara sé verið að tala um línuívilnun. Það er verið að tala um öll hin atriðin sem ég nefndi flest áðan og við eigum eftir að fara betur yfir í þessari umræðu.