Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:25:49 (3034)

2003-12-10 14:25:49# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Þetta frv. er fyrst og fremst lagt fram til þess að finna leið til að leysa ríkisstjórnarflokkana, Sjálfstfl. og Framsfl., út úr ákveðnum ógöngum sem þeir komu sér í í vor í kosningabaráttunni þar sem Sjálfstfl. gekk til kosninga og lofaði línuívilnun og rak þá kosningabaráttu býsna hart, a.m.k. í sumum landshlutum, línuívilnun sem átti ekki að koma niður á öðrum jöfnunaraðgerðum í stjórn fiskveiða eins og byggðatengingum eða byggðakvótum, heldur átti að vera sjálfstæð aðgerð eins og þá var lofað. Hins vegar höfum við kosningaloforð Framsfl. sem lutu að aukningu á byggðakvótum.

Stjórnarflokkarnir komust í gegnum kosningabaráttuna með því að halda þessu fram. Andstæðingum línuívilnunar í Sjálfstfl. var skipað að halda sig á mottunni fram yfir kosningar því að það yrði hvort eð er ekkert gert sem kæmi sér illa fyrir þá. Þannig var öllum þessum hóp haldið hljóðum þangað til kosningar voru afstaðnar.

Síðan höfum við fylgst með hverri uppákomunni á fætur annarri í sumar þar sem stjórnarflokkarnir bundu í stjórnarsáttmálanum að það skyldi bæði taka upp línuívilnun fyrir dagróðrabáta, það skyldi auka byggðakvóta og það skyldi líka styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila. Einnig átti að binda í stjórnarskrá að auðlindir sjávar væru sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta á allt saman eftir að koma fram.

Það sem er kannski markverðast nú er að þetta frv. tekur bara á einum þættinum út frá ákveðnum forsendum, þ.e. línuívilnun eftir mjög kyndugum reglum, en á móti eru skornir niður byggðakvótarnir sem Framsókn barðist fyrir og ekki sér neins staðar staf um að það eigi að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaganna, sem var þó kannski eitt af því skynsamlega sem var lagt til í kosningabaráttunni, að styrkja möguleika sveitarfélaganna til þess að koma inn í núverandi kerfi, eins og það var, og komast yfir fiskveiðiheimildirnar. Á margan hátt var það kannski eitt það skynsamlegasta sem sagt var. En það bólar ekki á þeim efndum.

Virðulegi forseti. Það er rétt að taka fram að við erum hér fyrst og fremst að fjalla um vandræðagang ríkisstjórnarflokkanna, um það hvernig á að taka á kosningaloforðum sem þeir voru með, sem voru í senn bæði þverstæð innan flokka og milli flokka.

[14:30]

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur alveg skýra stefnu í sjávarútvegsmálum og hefur gefið út í litlum bæklingi útfærða stefnu um hvernig við viljum sjá stefnunni í sjávarútvegsmálum breytt. Meginmarkmið í þeirri stefnu eru, eins og til er vitnað í þessum stefnumiðum okkar, þessu litla kveri með stefnumiðum í sjávarútvegsmálum, með leyfi forseta:

,,Að tryggja í verki sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum og réttláta skiptingu afrakstursins.

Að gera grundvallarbreytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem komi til framkvæmda í áföngum á næstu 20 árum.

Að bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og efla vistvænar veiðar.

Að skapa forsendur til að treysta búsetu við sjávarsíðuna.

Að tryggja atvinnuöryggi og kjör fiskverkafólks og sjómanna.

Að stuðla að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum helstu aðila innan sjávarútvegsins, þ.e. útgerðar, fiskvinnslu, verkafólks og sjómanna, sjávarbyggða og samfélagsins alls.

Að stuðla þannig að nauðsynlegum kerfisbreytingum og aðgerðum að stöðugleiki verði tryggður og hæfilegur aðlögunartími gefist.``

Þetta eru þær forsendur sem við leggjum upp, virðulegi forseti, og er rakið hér ítarlega hvernig megi ná þessum markmiðum. Þegar bornar eru á borð breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum hljótum við einmitt að meta þær út frá stefnumiðum okkar.

Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða stendur, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð krefst þess að markmið laganna standi og nýtingarréttur sjávarbyggðanna sé virtur. Sanngirni ríki í skiptingu þjóðarauðs og vistvæn sjónarmið í veiðum og vinnslu ráði ferð í íslenskum sjávarútvegi. Framsal eða brask með kvóta verði óheimilt og sjávarjarðir fái skilgreindan útræðisrétt. Með því að byggðatengja hluta fiskveiðiréttindanna tryggjum við framtíð sjávarplássanna og atvinnuöryggi fiskverkafólks og sjómanna. Búseta við sjávarsíðuna hefur byggst upp vegna nálægðar við gjöful fiskimið og íbúum þeirra ber rétturinn til að nýta þau. Fiskveiðistjórn sem beitt er til styrkingar búsetu verður að fela í sér byggðatengingu auðlindarinnar og kröfu um að aflinn fari til vinnslu í byggðunum sem njóta þessara réttinda. Með því að efla strandveiðiflotann og auka fullvinnslu og bæta nýtingu þess hráefnis sem veitt er og kemur að landi treystum við búsetu í sjávarbyggðunum og þannig getum við einnig stuðlað að bættri umgengni við auðlindina og notkun vistvænna veiðarfæra.

Það er vissulega löngu tímabært að taka mið af líffræðilegum forsendum við stjórn fiskveiða og val á veiðarfærum. Sú staðreynd er sorgleg að sáralitlar rannsóknir liggja fyrir sem byggja má líffræðilega stjórn fiskveiða á. En það er vitað og sjómenn þekkja það að áhrif mismunandi veiðarfæra og veiðiaðferða geta verið mikil en það er deilt um hver þau eru. Það er því afar brýnt að stórauka rannsóknir á þessum þáttum áður en menn fara að gera einhverjar skyndibreytingar, órökstuddar eða lítt rökstuddar, í vali og meðferð veiðarfæra. Við höfum allt of lítinn grunn, sorglega lítinn grunn, að byggja á hvað þetta varðar í einni stærstu atvinnugrein okkar og í meðferð einnar dýrustu auðlindar okkar sem fiskurinn í hafinu meðfram ströndum landsins er.

Þetta held ég að sé stóra málið í sjálfu sér. Þarna þarf að gera stórátak þannig að við getum á grunni reynslu og vísinda beitt þeim veiðarfærum og fiskveiðiaðferðum sem passa hvað best í þeim tilvikum sem um er að ræða hverju sinni við veiðar og á veiðisvæðum.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð getur vel litið á línuívilnun sem einn lið í endurskoðun til vistvænni veiða. En það er mikilvægt að sú aukning veiðiheimilda sem geti komið í formi línuívilnunar sé bæði byggð á vísindalegum og reynslulegum forsendum og einnig það að sú aukning verði byggðatengd og auki atvinnuöryggi sjómanna, beitningamanna og annars landverkafólks, svo og fiskvinnslunnar í viðkomandi byggðarlögum. Þótt framseljanlegur kvóti sem má braska með, selja á milli skipa eða byggðarlaga, sé aukinn með línuívilnun treystir það ekkert byggð. Hann treystir ekkert atvinnuöryggi í landi, síður en svo.

Mér sýnist að með þeirri breytingu sem hér er lögð til í frv. hæstv. sjútvrh. sé í rauninni verið að fæla burtu þá litlu byggðatengingu eða þau litlu áhrif sem sveitarstjórnir, sveitarfélög og hið opinbera hafði í gegnum byggðakvóta til þess að færa byggðum tímabundnar veiðiheimildir. Það er verið að taka þá tengingu af. Línutvöföldunin eða línuaukningin fer ekki til sveitarfélaganna. Hún fer ekki til íbúanna sem búa í landi. Hún fer til einstaklinganna sem eiga skipin. Atvinnuöryggi, öryggi byggðanna sjálfra, öryggi íbúanna, verður síst betra eftir þessar breytingar eins og þær liggja nú fyrir.

Ef það á að fara út í línuívilnun, þ.e. að auka þátt línubáta með þeim kyndugu og kúnstugu reglum sem hér eru gerðar tillögur um, hefði ég viljað sjá leið til að byggðatengja þessa ívilnun þannig að hún kæmi íbúunum, íbúum viðkomandi byggða, til góða, styrkti og yki öryggi þeirra því það er það sem um er að tefla.

Ég átta mig ekki á öllum þáttum þessa frv. enda hefur komið fram í umræðunni að hæstv. sjútvrh. er einstaklega lagið að setja saman frv. sem eru illskiljanleg eða óskiljanleg venjulegu fólki. Er það kannski hluti af taktíkinni í þessu? Bátur sem fer á veiðar á grundvelli þessarar línuívilnunar, beitir í landi og er innan við 24 tíma á sjó og landar svo aflanum í viðkomandi byggð getur sett aflann upp á bíl sem ekur honum til Dalvíkur t.d. þótt honum sé landað á Patreksfirði, alveg jafnt, það er bara aukin heimild af því að það var línuívilnun. Sjáið hvað þetta er vitlaust. Og getur sama skip, sami bátur, beitt einn mánuð í landi og verið á línuívilnun, farið svo næsta mánuð eitthvað annað, til Hríseyjar eða Grindavíkur eða á marga aðra góða staði, og gert þaðan út og verið ekki á línuívilnun? Hvaða atvinnuöryggi er að fá fyrir byggðirnar ef bátur getur rokkað til og frá þannig að tengingin við byggðirnar er kannski rofin enn þá meira en var? Sá litli byggðakvóti sem var notaður til þess að stoppa í verstu göt kvótakerfisins, verstu afleiðingar, eða möguleikar til þess, er skertur nema hluti af honum er færður til ráðherra. Við verðum að styrkja framkvæmdarvaldið.

Það er nánast sama hvar maður kemur, þetta er meira eða minna lítið skiljanlegt. Ég verð að leyfa mér að vitna hérna til vísu sem mér barst vegna orðaskipta við hæstv. sjútvrh. hér áðan þegar ég, ásamt fleirum, skildi alls ekki hvað sjávarútvegsráðherrann átti við, enda upplifðum við það svo að hann vissi ekki heldur hvað hann væri að segja. Og þá fengum við þessa vísu sem mig langar að fara með, með leyfi forseta:

  • Við upplifun þeirri hugur hraus
  • Hóla-Jóns svo skulfu beinin. [Það var nú ekki alveg rétt.]
  • Ráðherrann öfugan hefur haus
  • og höfðinu stingur ofan í steininn.
  • Já, ég held að þetta sé í nokkrum góðum mergjuðum setningum nokkuð satt um þetta frv. (Gripið fram í: Og Jón.) Og vísan er eftir forseta. Hugmyndafræðin er ágæt en hæstv. sjútvrh. gaf tilefnið.

    Virðulegi forseti. Ég held að það sé margt fleira sem þurfi að athuga hér. Hér hefur verið minnst á dagabátana sem ekki eru hluti af frv. en eru engu að síður hluti af þeim flota og þeim atvinnuvegi sem við erum að ræða. Dagabátana er núna verið að skerða. Þeir voru 23 dagar fyrir einu ári. Og næsta haust þegar þessi ímyndaða línuívilnun kemur til framkvæmda eiga dagabátarnir að vera komnir niður í 18 daga. (Gripið fram í: 19.) Næsta haust 18. Það er í rauninni verið að skera þennan bátaflota niður. Það er tilfærsla annars vegar innan bátaflotans og hins vegar eru þá líka möguleikar fyrir stærri skip, stór skip, að fara á línuveiðar einhvern hluta á árinu og hirða upp þessi fáu tonn sem sett eru í línuívilnun.

    Hér er bara verið að færa á milli flota og menn geta velt fyrir sér hversu sanngjarnt það er. Vafalaust munu þeir sem fá þessa möguleika fagna því en hinir sem upplifa skerðingu munu náttúrlega ekki fagna. Alvarlegast er þó að þessi aðgerð er ekki til að auka atvinnuöryggi fólks í byggðunum. Hún er ekki til þess. Það er verið að færa heimildirnar á báta, á einstaklinga. Þær heimildir sem voru samt inni í byggðakvótunum og núna er verið að skerða og færa það sem eftir er meira inn til ráðherrans voru þó á vissan hátt, þótt takmarkaðar væru, til styrktar atvinnulífi í byggðunum og var hægt að setja skilyrði fyrir því að afli sem bærist á land yrði unninn þar með einum eða öðrum hætti. Nú er verið að skerða það þannig að hvað varðar atvinnuöryggi fólksins í landinu er þetta afturför, ef eitthvað er. Það held ég að menn verði að hafa skýrt fyrir sér þegar tekið verður á þessu máli í nefnd.

    Virðulegi forrseti. Ég ætla svo ekki að fara meira yfir það hvernig Sjálfstfl. og Framsfl. eru nú á handahlaupum við annars vegar að standa við kosningaloforðin sín og hins vegar að svíkja þau sem þeir gera núna jöfnum höndum sitt á hvað. Ég býst við að báðir flokkarnir upplifi að þeir séu núna að svíkja þau kosningaloforð sem þeir gáfu, annar með aukningu byggðakvótans og hinn með línuívilnun sem átti að vera óháð byggðakvóta, þannig að ég hugsa að þeir kjósendur þeirra sem tóku eitthvert mark á þessu á sínum tíma sjái ekki fram á annað en að báðir flokkarnir séu þar að svíkja þá.

    Virðulegi forseti. Þetta mál kemur svo til sjútvn. sem ég á aðild að, fæ að fylgjast þar með málum og fjalla um þau. Þá gefast vafalaust fleiri skýringar á því sem hér er. Fyrst og síðast sýnist mér þetta endurspegla vandræðagang af hálfu stjórnarflokkanna varðandi kosningaloforð sem var aldrei ætlunin að standa við enda er ekki staðið við þau í sjálfu sér með þessu. Hins vegar sýnast mér þær tillögur sem hér eru lagðar fram ekki miða að því að auka atvinnuöryggi íbúanna á þeim svæðum sem um var að ræða. Áfram verður jafnfrjálst að aka burt með fiskinn þótt hann komi að landi í viðkomandi höfn. Íbúarnir þar eru jafnótryggir og áður, ótryggari ef eitthvað er, því byggðakvótarnir sem þeir þó fengu --- menn geta haft sína skoðun á þessum byggðakvótum, og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum áherslu á að hluti af fiskveiðiheimildunum eigi að vera byggðatengdur, fastur, en ekki bara sem kvóti frá ári til árs --- hafa reynst ákveðin sárabót. Þetta er núna verið að skerða með frv. og færa það sem eftir er í auknum mæli undir ráðherravaldið. Eins og málið lítur út núna sýnist mér ekki vera mikill búhnykkur að þessum breytingum til atvinnuöryggis búsetu í landinu.