Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:54:17 (3039)

2003-12-10 14:54:17# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins bregðast við því sem fram kom í ræðu þingmannsins varðandi flutning á fiski á milli verstöðva. Ég er almennt á þeirri skoðun að styðjast eigi við markaðslögmál í þessum viðskiptum eins og öðrum og tölur um flutning á afla milli verstöðva sýna að það er kerfi sem að mörgu leyti gengur upp. Ég get tekið það svæði sem ég þekki hvað best, sem eru Vestfirðir. Þar kemur fram, ef við skoðum þessar tölur, að yfir 80% af þeim afla sem landað er í vestfirskum höfnum er unnið í verstöðvum í fjórðungnum. Þannig að þó að það kunni að vera einhver tilfærsla á fiski eða flutningur á milli hafna, er það ekki út fyrir fjórðunginn. Langstærsti hluti þess sem landað er á þessu svæði er því unninn á sama svæði.

Ef við tökum bolfiskinn sérstaklega út úr er hlutfallið aðeins lægra, eða um 75%. Á móti kemur svo að til Vestfjarða er fluttur fiskur alveg eins og flutt er frá Vestfjörðum til annarra hafna eftir því hvar fiskkaupendurnir eru. Ef við tökum það með, sem ég hef reyndar ekki tölur yfir, er hlutfallið því í raun hærra.

Í sjálfu sér finnst mér þessar tölur sýna að þetta markaðskerfi gengur ekkert sérstaklega gegn a.m.k. þessum byggðarlögum hvað varðar ráðstöfun fiskafla og engin ástæða til að setja einhverjar kvaðir um vinnslu hans.

Ég vil þó segja það varðandi byggðakvótann, það eru heimildir sem eru í eðli sínu öðruvísi. Ég tel eðlilegt, vegna þess að þær afmarkast ekki bara við útgerð heldur líka aðra þá sem starfa í atvinnugreininni, að setja skorður við flutningi á þeim afla.