Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:56:27 (3040)

2003-12-10 14:56:27# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að hluta tekið undir þau sjónarmið hv. þm. að það sé alveg eðlilegt að hluti af aflanum sem berst að landi geti verið og sé á markaði og fari þangað sem best er boðið. En jafnmikilvægt er í hverju byggðarlagi að tryggður sé réttur til þess að allur aflinn sé ekki fluttur burt, því það er engan veginn sanngjarnt að það sé bara útgerðaraðilinn sem eigi allan réttinn til fiskjarins. Íbúarnir sem hafa átt þátt í að byggja upp viðkomandi stað og hafa átt þátt í að byggja upp verðmæti fiskjarins, eiga líka rétt. Útgerðaraðilinn getur ekki átt allan þann rétt. En við verðum líka að láta eðlilega hagræðingu og markaðssjónarmið fá sitt rými, en ekki á kostnað alls.

Hv. þm. kom inn á byggðakvótann sem hefur haft það hlutverk á vissan hátt að tryggja a.m.k. áhrif byggðarinnar á meðferð aflans, bæði veiðar og vinnslu. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. mundi skoða það hvort hægt væri að veita sveitarfélögunum þessa línuívilnun sem úthluta þessu svo með einhverjum skilyrðum. Þetta gæti í ákveðnum tilfellum farið svipaða leið og byggðakvótinn er núna með stýringu á þessa veiðiaðferð, sem getur verið allt gott að segja um í ákveðnum tilvikum, að það sé hvatt til þessara veiðiaðferða frekar en annarra og það sé þá að bestu manna yfirsýn. Er hugsanlegt að gera þær breytingar á línuívilnunarmálunum?