Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 15:30:24 (3047)

2003-12-10 15:30:24# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með að hv. þm. hefur skilið það alveg rétt að hér er um að ræða tvö sjálfstæð mál, þ.e. annars vegar línuívilnunin og hins vegar þau úrræði sem kveðið er á um í 2. gr. þessa frv., vegna þess að borið hefur við upp á síðkastið að menn hafi verið að reyna að rugla þessu málum saman og reyna að gera lítið úr áhrifum línuívilnunarinnar. Hins vegar, eins og ég sagði áðan, þá sjáum við ekki alveg á þessari stundu hvernig menn ætla að nýta þær heimildir sem þarna er verið að opna á, það verður auðvitað að leiða dálítið af eðli máls. En aðalatriðið er að hv. þm. áttar sig alveg á því sem er kjarni málsins, að hér er um að ræða tvo aðskilda hluti og að ekki er verið að eyða út einu til þess að koma öðru fyrir.

Varðandi dagakerfið þá er það alveg rétt að ég hef verið mikill áhugamaður um það að viðhalda dagakerfinu og tel að það skipti miklu máli að það sé gert. Við höfum verið að styrkja það heilmikið á undanförnum árum, m.a. með því að koma á klukkustundakerfinu, m.a. með því að búa til framsalsmöguleika, þannig að út af fyrir sig er það kerfi að mínu mati miklu sterkara núna en oft áður.

Ég lýsti því yfir á fundinum á Ísafirði og get gert það aftur að ég vil standa að því að koma á gólfi í þessu kerfi. En ég lýsti því jafnframt yfir, og ég held að ég hafi gert það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og oftar en þrisvar eins og hv. þm. vonandi man, að til þess að það væri hægt þyrftum við jafnframt að setja á reglur um sóknartakmarkanir þessara báta. Það sem ég var m.a. að vísa til var sú vinna sem var unnin á síðasta vetri sem gekk út á það að um leið og menn færu í það að reyna að búa til samkomulag um gólf í dagana þá væri líka um leið gengið þannig frá því að þetta leiddi ekki til aukinnar sóknar bátanna. Við vitum að það sem hefur verið að gerast er að menn hafa verið að kaupa stærri vélar og stækka þessa báta og auka sóknargetu þeirra og það sjá auðvitað allir að það gengur ekki og ekki síst smábátasjómenn sem hafa líka hugleitt þetta mál mjög mikið. Menn verða að átta sig á því að slíkt kerfi mun að lokum sprengja sjálft sig innan frá og þess vegna er mjög mikilvægt að gengið sé frá þessum málum öllum í heild sinni. Það reyndist hins vegar, því miður, ekki tóm til þess áður en þetta frv. var lagt fram þannig að það er um tómt mál að tala að við ljúkum því fyrir áramót.