Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 15:36:36 (3050)

2003-12-10 15:36:36# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði áðan að ég hefði haldið loðna ræðu. Mér fannst nú sumt í ræðu hans dálítið loðið og ég hefði gjarnan viljað að hv. þm. hefði farið yfir sumt af því sem virðist orka tvímælis í frv. og vera a.m.k. dálítið mikið öðruvísi en það sem við vorum að skoða í nefndinni frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni.

Ég vil fyrst segja að það að færa byggðapottana alla inn í 12 þúsund tonnin hjá ráðherranum þýðir að það er bókstaflega sagt í textanum að nota eigi afganginn af þeim 12 þúsund tonnum til þessara hluta.

Nú spyr ég: Ef fiskifræðingar finna ekki meira af loðnu núna og það þarf að nota þann pott sem þarna er um að ræða til þess að bæta flotanum þar upp, eins og hefur verið gert áður, eða ef einhverjar aðrar tegundir hverfa, hvað þá? Hvað verður þá mikill afgangur? Halda menn að þetta sé ótæmandi pottur eða hvað?

Síðan held ég að það verði að muna almennilega eftir því að það er ekkert um dagabátana í frv. ráðherrans. Svo langar mig til þess að hv. þm. fari yfir það hvort hann sé ánægður með þetta fyrirkomulag, að það skuli vera ólympískar veiðar hvað varðar þorskinn í línuveiðum, það eigi bara að blása til sóknar einn daginn og svo af annan daginn þegar potturinn er búinn í það og það skiptið.

Síðan er eitt enn: Er hv. þm. ánægður með að það skuli einungis vera þeir sem beita með höndunum í landi en ekki þeir sem stokka upp þar sem notaðar eru beitningatrektir? Er ekki uppstokkun alveg jafngóð handavinna í landi og beitning? Hvað með tegundatilfærsluna? Ég vissi ekki betur en hv. þm. hefði staðið að því að reyna að losna við hana.