Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 15:38:52 (3051)

2003-12-10 15:38:52# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði mig að því hvort ég væri ánægður með það fyrirkomulag sem er hérna varðandi þorskinn. Það er einfaldlega þannig eins og við vitum að þetta mál er á margan hátt vandasamt og um það er ágreiningur, m.a. í mínum flokki. Við verðum auðvitað að reyna að ná saman um þetta mál og við vitum það að áhyggjuefni ekki síst útgerðarmanna og sjómanna og þeirra sem hafa núna verið að mótmæla þessu fyrirkomulag, hefur lotið að þorskinum. Menn hafa haft áhyggjur af því að línuívilnunin leiddi til þess að þessir línubátar væru að taka til sín meira af þorski en menn gætu unað við.

Ég hygg t.d. að forustumenn sjómannahreyfingarinnar, forustumenn LÍÚ, fólkið í Vestmannaeyjum sem hefur verið að mótmæla hér upp á síðkastið, hafi m.a. haft áhyggjur af þessu. Þess vegna var það viðleitni af hálfu ríkisstjórnarflokkanna til þess að koma til móts við þessar áhyggjur að setja inn þennan pott. Ég féllst á það og tók undir með það. Og ég held að það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í frv., að skipta árinu niður í fjögur tímabil og setja potta inn í hvert tímabil í samræmi við veiðireynsluna árið á undan, sé fullkomlega viðunandi niðurstaða.

Ég vil spyrja hv. þm.: Telur hann, í ljósi þess að hann hefur áður lýst yfir stuðningi við frv. sem ekki fól í sér þennan pott í þorskinum, að það sé úrslitaatriði um að hann geti hugsanlega ekki stutt þetta frv. sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram að hann telur að það eigi ekki að vera nein takmörk fyrir því hvað menn geti teygt til sín í þorskinum í svona línuívilnun? Er það það sem hann telur að hafi fyrst og fremst misfarist í þeim breytingum sem eru á þessu frv. miðað við það frv. sem hann lýsti yfir sérstökum stuðningi við í blöðunum fyrir sína hönd og síns flokks? Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir.

Er það kannski það sem hv. þm. segir núna að geri það að verkum að hann geti ekki stutt frv. eða að hann sé a.m.k. með vomur varðandi þetta frv., að hann telur að það hefði átt að hafa þetta opið hvað þorskinn áhrærir? Það væri gaman að heyra svar við því.