Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 15:41:04 (3052)

2003-12-10 15:41:04# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæst. forseti. Mér fannst þetta nú hálfloðin ræða, ég verð að segja það. (Gripið fram í.) Ég get bara sagt það að auðvitað er þetta klúður. Það eru ólympískar veiðar sem á að hleypa af stað í fjórum hálfleikjum yfir árið, það á að blása til sóknar fjórum sinnum á ári og síðan á að blása af fjórum sinnum á ári þegar búið er að ná þessu.

Hvað halda menn að gerist þarna? Það gerist ekkert annað en það að þeir sem ætla að nýta þetta munu hamast eins og þeir geta, róa í öllum veðrum og reyna að djöflast til þess að ná sem mestu út úr þessu. Auðvitað er þetta klúður og auðvitað er miklu skárra að hafa einhverja almenna reglu heldur en hluti eins og þetta.

Svo spurði ég hv. þm. um ýmislegt annað sem hann ekki svaraði, m.a. hvort hann væri ánægður með það að ekki væru þarna inni veiðar með beitningatrektum, og það er auðvitað fjölmargt sem þyrfti að skoða. Hvað með tegundatilfærsluna? Ég veit ekki betur en hv. þm. hafi beitt sér gegn henni eða staðið fyrir því að losna við eða draga verulega úr tegundatilfærslunni. Hún er komin þarna inn aftur. Hvernig stendur á því? Er hv. þm. ángæður með það?

Ég held að það sé kannski einhver von um það að farið verði yfir þetta í nefndinni og það hafði ég von um með fyrra málið sem um var rætt, að við gætum farið yfir það og fengið tækifæri til þess að hafa áhrif á heildarniðurstöðu í málinu. Það virðast vera minnkandi líkur á því þegar hér er komið stjfrv. En það skal þó á það reynt inni í nefndinni og hv. þm. er kannski tilbúinn til þess að setjast með okkur í stjórnarandstöðunni yfir möguleika á breytingum á þessu. Það væri ágætt að fá svör við því hér hvort það er svo eða hvort það eru bara samningar innan ríkisstjóranrinnar sem hér gilda eins og venjulega hefur verið.