Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 15:43:07 (3053)

2003-12-10 15:43:07# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt. Við höfum verið að gera breytingar í þá átt sem hv. þm. sagði varðandi tegundatilfærsluna og ég studdi það og hafði forustu um það á vissan hátt innan nefndarinnar þegar málið kom þangað inn og ég tel að þær breytingar hafi verið fyrir allra hluta sakir mjög skynsamlegar. (Gripið fram í: Ertu þá óánægður?) Nei, hins vegar er það þannig, virðulegi forseti, að nú eru uppi aðstæður sem gera það að verkum að menn telja að það kalli á heimild til handa hæstv. sjútvrh. til þess að ... (Gripið fram í: Er það til bóta í málinu?) Hér er heimild til handa hæstv. sjútvrh. til þess að víkja frá við sérstakar aðstæður og það er það sem verið er að gera þarna. Það er ekki verið að breyta almennt út frá tegundatilfærslunni, það er eingöngnu verið að opna þessar heimildir þegar nauðsynlegt er.

Hv. þm. fór aðeins yfir það sem hann hefur kallað ólympískar veiðar í þorski og felur það í sér að þarna er verið að opna á línuívilnun upp á 16% með þaki sem er þó gert með þeim hætti að það er skipt niður, eins og ég nefndi áðan, yfir árið. Hv. þm. virðist hafa mikið á móti þessu. Og af því að ég veit að hv. þm. getur ekki komið hér í annað andsvar, þá tel ég að hv. þm. sé með öðrum orðum að gefa til kynna að hann telji að það sé það sem er að þessu frv. Það sé það sem geri það að verkum að hann eigi erfiðara með að styðja þetta frv. en það frv. sem áður hafði verið rætt um í umræðunni.

Þetta finnast mér dálítið mikil tíðindi vegna þess að ég tel sjálfur að þetta hafi verið viðleitni til þess að koma til móts við gagnrýni sem uppi er og uppi hefur verið. Þetta var ekki endilega mín tillaga en þetta var hins vegar niðurstaða til þess að koma til móts við ákveðna gagnrýni og ég stend við það.