Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 18:24:14 (3056)

2003-12-10 18:24:14# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom inn á það í seinni hluta ræðu sinnar að verið væri að skerða núverandi byggðakvóta alla vega í því formi sem þeir eru. Eins og frv. lítur nú út eru ákveðnir bátaflokkar úti og aflamarksbátarnir verða skertir og annað óréttlæti sem núv. frv. gengur út á. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann óttist ekki að það verði allsherjardeila innan báta- og strandveiðiflotans ef ekki verður þarna nein breyting á. Bæði hvað varðar línuívilnunina eins og hún er, þessar beitningarreglur og þessi skipting á árið og aðrar slíkar reglur sem maður sér ekki að lúti beint að hinum vistvæna hluta veiðanna, ef það eru rök í málinu á sú takmörkun sem þarna er sett inn í sjálfu sér lítið skylt við það.

Það verður einnig að horfa á stöðu dagabátana í þessu samhengi þó að þeir séu ekki hluti af frv. eins og það er lagt fram hér. Mun hv. þm., sem starfandi formaður sjútvn., beita sér fyrir því að málefni dagabátanna og krókaaflamarksbátanna verði tekin inn í umræðuna í sjútvn., að þeirra hlutur skerðist ekki sjálfkrafa vegna breytinga sem boðaðar eru í frv?