Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 18:31:14 (3060)

2003-12-10 18:31:14# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[18:31]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að forvitnast um það hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni hvort hann sé sáttur við þessar breytingar, að demba öllum byggðakvótanum á 9. gr., inn í þau 12 þús. tonn sem þar eru og hann verði þar afgangsstærð. Þannig yrði það, samkvæmt þeim reglum sem þar gilda. Ef loðnuveiðarnar bregðast t.d. núna þá verður 9. gr. notuð til þess að bæta þar úr. Við vitum hvernig hörpudisksstofninn er og fleira getur komið til en þetta. Þannig er ekki á vísan að róa í þessu máli.

Auk þess skal öllu vísað heim til ráðherrans og nú er allt í einu sá maður sem mest hefur talað gegn byggðakvóta, hæstv. sjútvrh., að verða byggðakvótamálaráðherra ríkisstjórnarinnar. Mér finnast það heldur skrýtin skipti.

Síðan langar mig að heyra frá hv. þm. hvernig honum líst á ákvæðin um þorskinn, að þarna skuli vera ólympískar veiðar á þorskinum. Ég sé ekki annað en það verði hið versta fyrirbrigði eigi að standa þannig að málum.

Í þriðja lagi langar mig að segja um skerðingu krókaaflabátanna að mér finnst ekki ásættanlegt að menn komi núna, þegar menn hafa gert ráð fyrir þessu og þetta verið í lögum, og kasti þessu út. Ég átta mig ekki nákvæmlega á því með hvaða hætti það kemur út fyrir þau byggðarlög sem þar eiga hlut að máli.