Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 19:02:54 (3069)

2003-12-10 19:02:54# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[19:02]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni af síðustu ummælum hæstv. sjútvrh. þá vill þannig til að í síðustu viku þegar þingmenn Sjálfstfl. voru spurðir að því hvort þeir væru fylgjandi línu\-ívilnun þá gat enginn þeirra svarað. Það var vegna þess að fram var komin hugmynd frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um línuívilnun. Þeir gátu ekki svarað því, ekki einu sinni hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa.)

Núna þegar þeir eru spurðir að því hvort þeir séu fylgjandi línuívilnun þá svara þeir nánast allir sem einn að þeir séu það, eftir að frv. ráðherrans kom fram. Það virðist því gerast í fleiri flokkum en Samf. að menn velti fyrir sér hvort þeir styðji línuívilnun eða ekki. (Sjútvrh.: Þið eruð sem sagt að velta þessu fyrir ykkur.)

Varðandi 6.200 tonnin sem ráðherra talaði um að ekki hefðu farið til skipa sem misst hefðu aflahlutdeild og væri búið að úthluta nú á önnur skip þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Þegar byggðakvótinn er kominn inn í þessi 12 þús. tonn, verður þá eitthvert þak á honum? Ef til þess kemur að verulegur aflabrestur verði t.d. í kolmunna og þarf að úthluta einhverju af þessum 12 þús. tonnum, gengur það þá á byggðakvótann þannig að hann geti í sjálfu sér orðið enginn? Eða á hinn veginn: Ef ekki þarf að úthluta mikið úr þessum 12 þús. tonnum, verður þá hægt að úthluta 6 þús., 7 þús., 8 þús. eða 9 þús. tonnum í byggðakvóta? Við hljótum að þurfa að fá svör við því.

Það eru komin svör frá ráðherranum um beitninguna í landi og þarf ekki að hafa mörg orð um það. En varðandi það sem hann sagði um tegundatilfærsluna þá er ég sammála hæstv. ráðherra um að það þarf, miðað við kerfið sem nú er, einhverja tegundatilfærslu. En 2%, eins og hún hefur verið í ákveðinni tegund, held ég að sé kappnóg og algjör óþarfi að auka hana frá því sem nú er.