Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 19:51:28 (3073)

2003-12-10 19:51:28# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[19:51]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki að ástæðulausu sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur áhyggjur af því að tegundatilfærslan færist of mikið yfir í eina tegund og í þessu tilfelli, eins og hann talar um, karfann því það hefur gerst áður. Og það er alls ekki meiningin með því að fá þessa heimild til að lyfta takmarkinu af tilteknum tegundum að breyta þessu í karfanum. Hugsunin á bak við það er sú staða sem komin er upp í löngu og keilu. Við það að hún var sett í kvóta, hefur orðið ákveðin verndun þar og það verður til þess að hún fer að gefa sig betur og hún er að veiðast heldur skár á línu en áður var og þess vegna koma upp svona vandamál. Þess vegna þurfum við að hafa sveigjanleika í kerfinu og þetta er gert til þess að hægt sé að mæta slíkum aðstæðum sem upp koma þegar stofnar eru að ná sér betur á strik og kvótarnir verða þá tímabundið í ósamræmi við það hvernig tegundin er að gera sig í veiðinni.