Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:43:47 (3085)

2003-12-10 20:43:47# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:43]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að það væri alveg skýrt þegar ég sagði að ég styddi þetta mál og fagnaði því. Ég hélt að allir skildu hvað það þýddi þegar menn styðja mál og fagna því, þá þyrfti ekki að spyrja neins. Það er vitað mál og það vita allir, virðulegi forseti, að þegar stjfrv. er lagt fram rétt fyrir jól og það er stefnan að gera það að lögum, er auðvitað búið að semja um það. Vita það ekki allir? Auðvitað er búið að semja um það og auðvitað styð ég frv. óbreytt.

Ég hélt hins vegar ræðu áðan um það hvernig ég teldi að best væri staðið að styrkingu byggðanna. Félagslegi kvótinn væri gerður og ríkisstjórnin ætti alltaf að hafa það á valdi sínu. Ég persónulega tel að ekki þyrfti að taka þetta af neinum. Það mætti taka þetta úr hafinu þess vegna þó það þyki guðlast í augum annarra.