Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:53:35 (3094)

2003-12-10 20:53:35# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:53]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi hlustað á ræðu mína í dag. Þar fór ég yfir afstöðu mína til þessa máls. Hún fer ekkert á milli mála. Ég tel að það eigi að vera hv. þm. alveg ljóst að línuívilnun var ekki á stefnuskrá Samf. fyrir þessar kosningar heldur var hún á stefnuskrá Sjálfstfl. og Framsfl. Þegar menn heimta síðan stuðning við einhvern bastarð sem þeir hafa samið um í bakherbergjum stjórnarflokkanna þá geta þeir ekki átt von á því að við hrópum húrra fyrir því öllu saman.

Þótt við höfum viljað skoða það frv. sem hv. þm. Kristinn Gunnarsson lagði fram, sem er í fjölmörgum atriðum allt öðruvísi en það frv. sem liggur hér fyrir, þá höfðum við ekki einu sinni tækifæri til að ræða við hv. þm. um hvaða breytingar þyrfti að gera á því ef stjórnarandstaðan ætti að taka málið upp á sína arma, eins og þá virtist standa til. Menn hljóta að sjá að það er munur á þessum málum.