Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:01:05 (3100)

2003-12-10 21:01:05# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EMS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:01]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Umræðan um það frv. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, hefur um margt verið merkileg og sérstök í senn. (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?) Hæstv. ráðherra er væntanlega í hliðarsölum að hvíla sig örlítið á umræðunni og ekki skrýtið því á miklu hefur gengið hér í dag. En við treystum því, herra forseti, að hæstv. ráðherra sé í húsinu, er það ekki rétt?

(Forseti (BÁ): Ráðherra er í húsinu.)

Já, við skulum ekki gera athugasemdir við það þótt hæstv. ráðherra vilji dvelja einhvers staðar í hliðarsölum, hann er væntanlega ekki langt undan ef hann telur ástæðu til þess að taka þátt í umræðunni á eftir.

Það kom margt merkilegt fram í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Hann kom víða við að vanda og lýsti yfir miklum stuðningi og mikilli ánægju með það frv. sem hér er lagt fram. Hann fór örlítið yfir það hvernig þetta frv. hefði orðið til. Og ég held að rétt sé að taka undir með nokkrum hv. þm. sem hafa óskað sérstaklega ákveðnum hv. þm. Vestfirðinga til hamingju með árangurinn. Það kom mjög glögglega fram í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að hann lítur á sig sem mikinn sigurvegara í þessu máli og það er augljóst mál miðað við málflutning hv. þm. að hann lítur á hæstv. sjútvrh. sem tapara í málinu. Hæstv. sjútvrh. hafi ekki náð að halda fingrum sínum kyrrum, vegna þess að hv. þm. sagðist hafa sagt að ekki hafi verið lyft fingri til þess að leysa málið fyrir viku síðan, en síðan hafi hv. þm. átt leið að því er virtist algerlega óundirbúið í sjútvrn. og þá hafi komið í ljós að þar var búið að vinna miklu meira en hv. þm. hélt. Það var sem sagt byrjað að eiga við frv. í þessa átt og hv. þm. tilkynnti það að hann hefði síðan tekið þátt í því að semja um það hvernig frv. yrði og hefði að því er mér skildist og ég held þeim hv. þm. sem hér hlustuðu á, unnið fullan sigur í málinu.

Það er ekkert skrýtið. Hv. þm. rifjaði upp hvernig þetta hefði orðið til. Hann sagði okkur það, sem ekki vorum á þeim merka fundi, landsfundi Sjálfstfl., að þar hefði þetta mál verið samþykkt í upphafi og síðan hefði það verið notað mjög af nokkrum frambjóðendum flokksins í síðustu kosningabaráttu. En hv. þm. sagði hins vegar einnig að þeir sem hefðu verið á móti og hefðu orðið undir á landsfundinum, hefðu valið þá leið að þegja um málið í kosningabaráttunni.

Herra forseti. Ég verð að vitna í þessu máli. Hv. þm. fer algjörlega með rétt mál vegna þess að í mínu kjördæmi minnist ég þess ekki að á nokkrum einasta fundi hafi einn einasti frambjóðandi stjórnarflokkanna nokkurn tímann nefnt þetta mál, enda kæmi mér það mjög á óvart ef einhver þeirra hv. þm. sem kosnir voru í því kjördæmi styddi þetta mál, nema með svipuðum þvingunum og væntanlega hefur verið beitt gagnvart hæstv. sjútvrh. Því ég á erfitt með að trúa því að hæstv. sjútvrh. sé a.m.k. mikill aðdáandi þessa máls.

Það er líklega rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að að ýmsu leyti er þetta mál kannski lítið og skiptir litlu. En það er nú oft þannig að það sem byrjar smátt getur orðið ógnarstórt. Og það er auðvitað alveg ljóst hvaða stefnu verið er að taka með þessu frv. Það er t.d. verið að segja að það sé ákveðinn útgerðarflokkur sem eigi að njóta alveg sérstakra forréttinda, þ.e. frumstæðasti þátturinn í sjávarútvegi þjóðarinnar þegar beitt er með höndum í landi, svo takmarkað skal það vera. Og spurningin er þá sú: Má ekki búast við því að haldið verði áfram í þessa átt? Eða treystir hæstv. sjútvrh. sér til þess að fullyrða að þetta verði síðasta skrefið sem stigið verði í þessa átt þar sem þessi sérstaki útgerðarflokkur fær alveg sérstaka meðhöndlun og er þá væntanlega hvati til þess að fleiri leiti á þessi mið?

Við getum auðvitað haldið áfram að velta því fyrir okkur hvert gæti þá verið næsta skref. (Gripið fram í: Árabátar.) Ja, það er ekki víst, hv. þm., að það yrði næsta skref að fara í árabáta, en maður gæti séð það fyrir sér að það yrði síðasta skrefið, að þetta endaði þar. Ef eitthvert samhengi væri í hlutunum hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnin væri með einhverja stefnu sem hún væri að framfylgja, þá væri þetta fyrsta skrefið, en síðasta skrefið yrði væntanlega árabátar. Og þá værum við líklega komin nógu langt aftur til þess að ýmsir hv. þm. sem hafa ekki (Gripið fram í.) stutt mörg mál gætu farið að styðja slíkt. Þá værum við líklega komin það langt aftur á bak. Og þá er hins vegar spurningin: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart þjóðarbúinu almennt? Er hæstv. sjútvrh. t.d. algjörlega klár á því að þetta frv. skili auknum verðmætum í þjóðarbúið, er það algerlega kristaltært? Eða gæti verið að það væri alveg ljóst í huga hæstv. ráðherra að því væri þveröfugt farið, það væri væntanlega verið að minnka verðmæti til þjóðarbúsins?

Það væri fróðlegt að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra því það getur ekki annað verið með tilliti til hinnar vönduðu vinnu sem væntanlega hefur farið fram í sjútvrh. eftir vitnun hv. þm. Einars Odds, en að búið sé að vinna þar miklu lengur en hv. þm. grunaði fyrir viku, að það sé búið að fara yfir alla þessa þætti og það sé auðvitað búið að meta áhrif frv. á þjóðarbúskapinn, t.d. það hversu margir menn vinna við beitningu á Íslandi í dag. Hvað má búast við að margir hafi vinnu af því eftir þessa breytingu? Hve mikið aflaverðmæti kemur að landi frá þessum útgerðarflokki í dag og hve mikið verður það eftir þessa breytingu? Og hvaða breytingu orsakar þetta hjá öðrum útgerðarflokkum? Hversu mörg eru þau störf sem væntanlega er ætlunin með þessu frv. að færa til Vestfjarða einhvers staðar annars staðar frá? Hvernig mun það bitna á sjávarbyggðunum í landinu öðrum en þeim sem fá hugsanlega einhver störf til viðbótar?

Miðað við þetta er verið að taka þau einhvers staðar annars staðar. Þess vegna er ekki einu sinni verið að framkvæma það sem þessir frambjóðendur sem töldu það væntanlega hagnast sér í sínum kjördæmum í vor, töluðu um, línuívilnun. Vegna þess að ég man ekki betur en flestir þeir hv. þm. sem ég hef heyrt minnast á ívilnunina hafi talað um það fram undir þetta að hún hafi átt að vera viðbót í kerfið. Þetta ætti ekki að taka af nokkrum aðila. Svo kemur frv. fram og þá kemur auðvitað í ljós að verið er að taka þetta einhvers staðar. Það er ekkert verið að bæta þessu við.

Það var því ekkert skrýtið þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fór svo fljótlega í ræðu sinni að tala um það að aflamarkskerfið væri raunverulega ómögulegt, þetta væri ómögulegt kerfi. Og þetta væri líklega fyrsta skrefið, en svo stoppaði hann, ég veit ekki hvað hv. þm. ætlaði að segja. Fyrsta skrefið í hvaða átt? Ja, kannski í átt að árabátunum? Hver veit. En hann áttaði sig, hv. þm., og stoppaði og talaði síðan um það að þetta væri til að styrkja línuveiðarnar. En er það svo víst, hæstv. sjútvrh., að verið sé að styðja og styrkja allar línuveiðar? Mér hefur skilist af umræðunni í dag og af lestri þessa frv. að það sé ansi takmarkað hvað verið er að styrkja línuveiðar almennt. Það er eingöngu verið að styrkja frumstæðustu línuveiðarnar. Víðar nær það ekki, sýnist mér, í þessu frv.

Herra forseti. Það er auðvitað margt fleira sem er athyglisvert í þessu og kom fram bara í ræðum síðustu hv. þingmanna og í andsvörum við ræður þeirra. M.a. kom það fram hjá hæstv. sjútvrh. að það væri aðeins eitt sem ekki væri í fullu samræmi við það sem hæstv. ráðherra hefði sagt á undanförnum mánuðum og það er að gildistakan varðandi ívilnun á ýsu og steinbít yrði 1. febrúar en ekki 1. september 2004, eins og hæstv. ráðherra hefur margoft sagt, að ekki ætti að breyta neinu fyrr en 1. september 2004. Síðan bætti hæstv. ráðherra því við að ef frv. yrði ekki samþykkt fyrir jól þá yrði þessi ívilnun ekki 1. febrúar 2004. Það er því alveg nauðsynlegt að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það sé ekki ætlun ríkisstjórnarinnar með því samkomulagi sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson upplýsti þingheim um áðan, hvort það væri ekki hluti af samkomulaginu að keyra þetta í gegnum þingið fyrir jól, eða hvort það hafi verið röng upplifun hjá mér þegar hæstv. ráðherra sagði að það gætti svona örlítillar vonar um að kannski mætti tefja frv. fram yfir jól þannig að þessi ósköp dyndu ekki yfir strax 1. febrúar, heldur vonandi einhvern tímann síðar.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði svolítið af því í dag að fara upp í andsvörum og óska eftir því að menn töluðu skýrt, og stóð síðan ekkert mikið í því sjálfur að tala mjög skýrt. Og það væri auðvitað skemmtilegt ef hv. þm. heyrði til mín og gæti svarað því hér á eftir, hvort afstaða hv. þm. sé mjög skýr í málinu, þ.e. hvort hv. þm. styður frv. algjörlega óbreytt eða hvort hann hafi haft einhvern örlítinn fyrirvara við frv. Og þegar ég minnist á fyrirvara þá kemur það upp í huga minn sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að hann vissi ekki til þess að það væri neinn fyrirvari almennt hjá stjórnarflokkunum við þetta frv. Það er auðvitað allt annað en ýmsir hv. þm. Framsfl. hafa sagt í fjölmiðlum. Og það er auðvitað alveg nauðsynlegt af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur alltaf verið að spyrja um skýra afstöðu. Það væri ekki ónýtt að fá skýra afstöðu Framsfl. í málinu. Er Framsfl. tilbúinn til að styðja þetta frv. óbreytt eða er einhver önnur afstaða í Framsfl. heldur en í Sjálfstfl.? Ég leyfi mér reyndar að efast um það að hann sé yfirleitt í Sjálfstfl. en eins og búið er að berja hann til í Sjálfstfl.? Hvort Framsfl. er algjörlega sammála því eður ei?

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að rifja örlítið upp þetta mál og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson aðstoðaði mig örlítið við það en það eru samt okkur atriði sem komið hafa fram í fjölmiðlum á undanförnum vikum og mánuðum sem ég held að nauðsynlegt sé að rifja aðeins hér upp. Það gerðist t.d. hinn 10. júlí í Ríkisútvarpinu að fjallað er um afstöðu hæstv. sjútvrh. og þar segir, með leyfi forseta:

,,Árni [þ.e. hæstv. sjútvrh.] segir engu slegið föstu um það í stjórnarsáttmála að auka skuli byggðakvóta eða taka upp línuívilnun, slíkt hafi ekki heldur verið upp á teningnum í stefnuræðu forsætisráðherra.``

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er að sjálfsögðu látinn bregðast við þessu og segir í sömu frétt sem var í Ríkisútvarpinu hinn 10. júlí, með leyfi forseta:

,,Og ég bendi á varðandi línuívilnunina að hún hefur verið samþykkt á flokksþingum beggja stjórnarflokkanna og þó að sjávarútvegsráðherra hafi verið á móti því í sínum flokki þá ber honum auðvitað að hrinda því í framkvæmd sem hans flokksmenn hafa samþykkt og sem ríkisstjórnin hefur náð saman um.``

Ég verð ekki var við það, herra forseti, í fréttinni að hæstv. sjútvrh. beri það til baka að hæstv. ráðherra hafi verið á móti línuívilnun í sínum flokki. Og hafi hæstv. ráðherra verið á móti línuívilnun í sínum flokki væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvað breyst hafi annað en að það séu samþykktir víða sem hafi sett hann í þá stöðu að þurfa leggja fram og mæla fyrir því frv. sem hér er til umræðu.

Herra forseti. Áfram er haldið. Hinn 8. ágúst í fréttum í Ríkisútvarpinu varðandi þetta sama mál, þegar búið er að vitna nokkuð í hv. þm. Kristin H. Gunnarsson um að það sé ágreiningur um málið, segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Nei, ég hef nú ekki orðið var við ágreining á milli stjórnarflokkanna. Í þessari ákvarðanatöku hef ég haft samráð við formann Framsóknarflokksins um hvernig að þessu er staðið og ekki orðið var við það hjá honum að hann telji að ég sé að brjóta stjórnarsáttmálann.``

En hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafði gefið það til kynna í fréttum áður að hæstv. sjútvrh. væri líklega að brjóta stjórnarsáttmálann því þetta kæmi allt saman mjög skýrt fram þar, þrátt fyrir það sem hann hafði sagt í frétt nokkru áður og haft eftir hæstv. sjútvrh. að slíkt væri alls ekki til staðar í stjórnarsáttmálanum.

[21:15]

Þann 17. ágúst sl. er einnig fjallað um þetta mál í Morgunblaðinu. Það er á margan hátt býsna fróðlegt sem haft er eftir hæstv. sjútvrh. þar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ef úthluta á til að styrkja byggðirnar geta verið rök fyrir því að úthluta eigi til dagróðrabáta, sem landi þá í heimahöfn og beitt sé í landi, þannig að vinna skapist í landi. Þá má líka setja skilyrði um það að aflinn verði einnig unninn í heimabyggðinni.``

Þetta var haft eftir hæstv. sjútvrh. þann 17. ágúst. Ég sé ekki að allt það sem hæstv. nefnir þarna sé í því frv. sem hér liggur fyrir. Fróðlegt væri að heyra skýringar hæstv. ráðherra á því hvort hann hafi skipt um skoðun frá því hann sagði þetta í Morgunblaðinu þann 17. ágúst eða hvort samkomulagið sem náðst hefur um málið hafi þvingað hann til þess að fara aðrar leiðir. En í sama viðtali segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Þeir sem vilja halda sig við byggðasjónarmiðið`` -- það hafa auðvitað verið meginrökin fyrir þessu frumvarpi, byggðasjónarmiðin -- ,,þurfa þá líka að færa rök fyrir því af hverju dagróðrabátar, sem nota önnur veiðarfæri, eigi ekki að fá ívilnun líka. Þá væri kannski réttara að tala um þetta sem byggðaívilnun. Ef menn setjast niður og skoða öll þau álitamál, sem í svona ívilnun felast er það alveg augljóst að menn þurfa að gefa sér góðan tíma til að fara yfir málið og meta þessa kosti.``

Ég held að það sé margt til í þessari tilvitnun hæstv. sjútvrh. Því spyr ég: Finnst hæstv. ráðherra það boðlegt eftir að hafa fært þessi ljómandi rök fyrir því að menn verði nú heldur betur að vanda sig við málið að ætla að keyra frv. í gegnum Alþingi á tveimur dögum? Hvernig á að vera hægt að ígrunda allar þessar hliðar vandlega ef ekki má gefa sér meiri tíma til þess að vinna í málinu? (HBl: Ef menn eru vel að sér eiga þeir ...)

Það er rétt, hv. þm., ef allur þingheimur, ég tala nú ekki um sjútvn., væri vel að sér í þessu öllu saman. En ég hef trú á því að flestir þingmenn séu að sjá ýmislegt af þessu í fyrsta skipti og hafi nefnt ýmislegt annað í línuívilnun en hér kemur fram.

Herra forseti, áfram með tilvitnanir. Þann 15. september sl. er Ríkisútvarpið enn að fjalla um línuívilnun sem kemur væntanlega mörgum á óvart. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsráðherra segir ríkisstjórnina einhuga í því hvernig standa á að línuívilnun fyrir smábáta. Frumvarp verði lagt fram í haust sem taki gildi í byrjun næsta fiskveiðiárs, 1. september 2004.``

Mikill var einhugurinn í ríkisstjórninni og hann hefur náð langt, því hér er frv. sem segir allt annað. Í sama fréttatíma, herra forseti, er rætt við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Þar er ekki verið að skafa af hlutunum frekar en fyrri daginn, því það er eiginlega sagt nokkuð kurteislega að ef hæstv. sjútvrh. fari ekki að drífa sig í þessu, sé ekki annað að gera fyrir hann en að kveðja stólinn.

Enn segir hæstv. sjútvrh. í þessari sömu frétt og er að vitna til ríkisstjórnarinnar:

,,Það voru allir sammála um það, að það væri rétt að fara í málið á þennan hátt og að stefna að því að leggja fram frumvarp á næsta þingi og fá það samþykkt og að síðan taki lögin gildi 1. september 2004.``

Þarna kemur sama dagsetningin fyrir enn og aftur. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. skýri fyrir okkur hvernig á því standi að þrír þingmenn af Vestfjörðum geti beygt heila ríkisstjórn. Hvers konar styrkur er í ríkisstjórn sem er haldið í gíslingu þriggja þingmanna? Væri ekki ráð að kanna hvar það endar ef haldið verður áfram á sömu braut? Það skyldi þó ekki vera styttra í árabátinn en ýmsir halda?

Herra forseti. Þann 15. september er einnig fjallað um málið í sjónvarpi. Þar kemur býsna merkileg tilvitnun, því í fréttinni segir:

,,Hins vegar nefndi sjávarútvegsráðherra mun lægra hlutfall á fundi sínum með formanni Smábátafélagsins Eldingar síðastliðinn vetur en þá ræddi hann um 1% línuívilnun.``

Kæmi ekki á óvart þótt hæstv. ráðherra hefði verið ánægðari með að leggja slíkt frv. fram heldur en það sem hann hefur lent í að mæla fyrir í dag.

Herra forseti. Fljótt líður tíminn og því verður ekki hægt að vitna mikið meira í hæstv. sjútvrh. En eins og þingheimur heyrir eru tilvitnanirnar hver annarri skemmtilegri og merkilegri. Þann 5. desember segir hæstv. ráðherra í sjónvarpinu, með leyfi forseta:

,,Það hefur út af fyrir sig ekkert breyst annað en það að við fundum aðferð sem við gátum sæst á.``

Það er ekkert annað, herra forseti. Aðferðin sem fannst var að hæstv. sjútvrh. hefur þurft að bakka með nær allt saman, og ekki bara hæstv. ráðherra heldur ríkisstjórnin eins og hún leggur sig vegna þriggja þingmanna frá Vestfjörðum. Herra forseti. Mikill er máttur Vestfjarðaþingmanna og hefði hann mátt vera slíkur áður því þá væri kannski betra ástand víða á Vestfjörðum en nú er. En það er notað sem helsti rökstuðningur fyrir því að sýna okkur þessi ósköp sem í þessu frv. eru.