Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:21:37 (3101)

2003-12-10 21:21:37# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:21]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur farið yfir ummæli mín á svipaðan hátt og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Honum hef ég svarað áður varðandi frétt frá 10. júlí, svarað áður hvað varðar dagsetninguna. Hv. þm. talar um frétt þar sem að ég hafi sagt við einn af forsvarsmönnum smábátaeigenda að 1% línuívilnun væri inn í myndinni. Ég vil segja við hv. þm. að hann á ekki að taka mark á öllu því sem hann fréttir og öllu því sem hann heyrir í fréttum. (Gripið fram í.)

Í sambandi við það sem hv. þm. segir að það eigi að afgreiða frv. á stuttum tíma og að ég hafi sagt að það þyrfti að vinna það vel, þá eru fjórir mánuðir liðnir frá því að þau ummæli féllu og það má vinna heilmikið á þeim tíma til þess að fá góða niðurstöðu eins og menn sjá á þinggögnum sínum. Þá spyr ég á móti, þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson lýsti yfir stuðningi við línuívilnunina fyrir hönd Samfylkingarinnar eða við formið sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var með í huga, virtist tíminn ekki skipta voðalega miklu máli, virtist vera allt í lagi að afgreiða það fyrir jólaleyfi, þá þurfti ekkert að liggja mikið yfir málinu.

Varðandi það sem hv. þm. spurði um, möguleika sem ég nefndi í sambandi við löndun í heimahöfn og að vinna aflann í heimahöfn, voru það að sjálfsögðu hlutir sem komu til greina og voru athugaðir í vinnunni í ráðuneytinu, en þegar til kom kallaði þetta á meira eftirlitsbákn en ég taldi skynsamlegt.

Að síðustu, herra forseti, talaði hv. þm. um hvaða áhrif þetta mundi hafa á þjóðarbúið og ýmsar hagstærðir. Það verður að benda honum á það að hér er verið að veita mönnum möguleika. Það er erfitt að sjá fyrir nákvæmlega hvernig menn munu nýta möguleikann en það hefur auðvitað áhrif á hagstærðir þær sem hann var að nefna.