Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:28:41 (3105)

2003-12-10 21:28:41# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:28]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Umræðan í dag um frv. sem er á dagskrá, þ.e. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með öllum síðari breytingum sem hafa orðið frá 15. maí 1990, hefur náttúrlega um margt verið mjög athyglisverð. Umræðan hófst í kosningabaráttunni, hófst á landsfundum Sjálfstfl. og Framsfl. þar sem menn töldu sig þurfa að gera einhverja bragarbót á fiskveiðistjórnarkerfinu til að koma til móts við gagnrýni og óánægju sem ríkti. Stjórnarflokkarnir gengu til kosninga með mjög slæma samvisku og reyndu allt hvað þeir gátu til að kaupa sér hylli kjósenda á einn eða annan hátt, hvort sem það var með loforðum í þá átt sem við erum að ræða hér, skattalækkunum, eða byggingum hist og her eins og áður hefur verið sagt. Það var öllu lofað á vinstri og hægri hönd, fram fyrir sig og í allar áttir.

[21:30]

Virðulegi forseti. Við höfum við umræðu um fjárlög og ýmislegt annað sem hefur verið á dagskrá í desember og á eftir að verða sem eftir lifir þings fram að jólaleyfi, fjallað um hin sviknu kosningaloforð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna og þau loforð sem þeir ætla að reyna að standa við þó að ekki sé notað nema eitt orð, í þessu tilfelli línuívilnun. Allir sem fylgst hafa með stjórnmálum á Íslandi hafa auðvitað fylgst með því hvernig kaupin hafa verið gerð á eyrinni hvað þetta varðar til þess að fá hæstv. sjútvrh. til þess að lyfta litla putta, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði eitt sinn um hæstv. sjútvrh., þ.e. að hann hefði ekki lyft litla putta til að gera eitt eða neitt í þeim málum sem hér var lofað.

Þessi umræða hefur um margt verið fróðleg. Hún hefur líka verið töluverð um sjávarútvegsmál almennt. Hér hefur verið vitnað í ýmislegt af því sem sagt hefur verið í aðdraganda kosninga og um línuívilnun og fiskveiðistjórnarkerfið almennt. Mér finnst alltaf nauðsynlegt, virðulegur forseti, að rifja upp 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, þegar rætt er um sjávarútvegsmál, hvort sem það er á hinu háa Alþingi eða úti á meðal almennings. Í 1. gr. laganna stendur, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.`` --- Þetta er göfugt markmið. --- ,,Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.`` --- Þetta er líka mjög göfugt og gott markmið. --- ,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Þetta er líka mjög göfugt. Svo hafa menn rifist og deilt í háa herrans tíð um túlkun á þessari grein, t.d. hér í dag. Nokkrir stjórnarþingmenn vitnuðu m.a. í það að fiskurinn í sjónum væri sameign okkar o.s.frv. Ég sagði áðan, virðulegi forseti, að í kosningabaráttunni hefði verið mikil umræða um þetta. 30 þús. tonn duttu allt í einu niður af himninum og ofan í sjóinn og voru til úthlutunar í einni ræðu hæstv. forsrh. á Akureyri. Þegar hæstv. forsrh. fór á fund í Vestmannaeyjum var lofað að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga á kvóta. Kem ég kannski að því á eftir.

Ég sem er nýr maður í sjútvn. hef lagt mig fram um að sækja hina ýmsu fundi sem ég hef átt kost á til þess að hluta á menn ræða um sjávarútvegsmál og það hefur verið um margt mjög fróðlegt. Ég sótti t.d. landsfund Landssambands íslenskra útvegsmanna og hlustaði þar á mörg fróðleg erindi. Ég hlustaði þar líka á menn segja að sennilega væri kvótakerfið svo á milli tanna fólks vegna þess að landið væri svo lítið, nálægðin væri svo mikil, að menn vissu allt um alla. Einn ágætur maður á þessum fundi vonaðist til þess að einhvern tímann yrðu fundnar upp töflur við öfund. Þá mundi þetta allt saman skána. Það kom fram með öðrum orðum að gagnrýni á fiskveiðistjórnarkerfið væri fyrst og fremst sprottin af öfund. Það kom líka fram hjá mönnum að breytingar á eignarhaldi fyrirtækja hafa valdið miklum deilum, samþjöppun veiðiheimilda og uppsagnir starfsfólks sem þá áttu sér stað t.d. á Raufarhöfn og Seyðisfirði. Auðvitað magnar þetta allt upp umræðu um kvótakerfið.

Það sem ég vildi sagt hafa, virðulegi forseti, er að það er mjög alvarlegt að við skulum enn þann dag í dag árið 2003 vera með þannig fiskveiðistjórnarkerfi að það veldur miklum deilum. Það er mjög alvarlegt að alltaf sé verið að rífast um þetta kerfi höfuðatvinnuvegs þjóðarinnar. Þess vegna hef ég sagt, virðulegi forseti, að það sé mjög mikilvægt að reyna að skapa þá mestu sátt sem hægt er um fiskveiðistjórnarkerfið þó að auðvitað sé barnaskapur að halda að einhvern tímann verði hægt að skapa algjöra sátt um það. En það þarf að sníða ýmsa vankanta af þessu kerfi sem jafnframt hefur samt sem áður marga kosti. (Gripið fram í: Nú?) Það hefur þá. Það hefur alltaf komið fram úr mínum munni. Við getum borið okkur saman við nálæg lönd og annað slíkt en það eru ókostir í kerfinu sem fólki blöskrar. Ég hef stundum sagt að það sem verst er og mest er gagnrýnt megi kalla hin þrjú B, þ.e. brask, byggðaröskun og brottkast.

Það er oft sagt, þó margir andmæli því, varðandi ýmislegt sem hefur gengið á á landsbyggðinni, t.d. íbúafækkun og annað slíkt, að sjávarútvegsstefnan, fiskveiðistjórnarkerfið hafi valdið þar miklu um. Nú ætla ég ekki að taka svo djúpt í árinni og segja að það sé algjör valdur að því. Það er alls ekki svo, en stór orsakavaldur. Landsbyggð er nefnilega ekki sama og landsbyggð í raun og veru.

Virðulegi forseti. Maður verður var við mikinn mun þegar maður fer vítt og breitt um landið, ræðir við fólk, kynnir sér staðhætti og kynnir sér hvernig kaupin gerast á eyrinni, ef svo má að orði komast, í sambandi við íslenskan sjávarútveg. Ef ég fer bara í mitt kjördæmi þá er mikill munur á því hvort við erum að ræða um Akureyri eða Fjarðabyggð eða t.d. Raufarhöfn eða Hrísey hvað fiskveiðistjórnarkerfið varðar. Þar er mikill munur á. Sum byggðarlög eiga í mikilli varnarbaráttu vegna þess að fiskveiðiheimildir hafa verið fluttar í burtu, jafnvel verið seldar burtu með einni undirskrift eins og stundum hefur verið sagt og eftir standa íbúar byggðarlaganna með eignir sínar sem oft og tíðum eru lífsstarfið, verðlausar eftir þetta. Þetta er það versta sem getur gerst í þessu kerfi.

Virðulegur forseti. Stuðningsmenn kerfisins hafa stundum sagt að þetta flytjist til annarra og efli þá og það er vissulega þannig. Þetta er að mínu mati einn höfuðókosturinn við þetta kerfi, virðulegi forseti, og nægir þar að nefna áföll sem dunið hafa yfir t.d. Raufarhöfn á liðnu sumri þó svo að vonandi sé verið að snúa þar vörn í sókn. Það er nú kannski meira vegna slembilukku, vegna þeirra sem komu til staðarins til að vinna þar áfram. Við höfum fylgst með baráttu Seyðfirðinga. Þar átti að hætta fiskvinnslu, leggja niður fiskvinnslu. Sveitarfélagið fer í hörkubaráttu sem endar með því að það tekur þátt í að kaupa kvótann til baka fyrir mörg hundruð milljónir vafalaust. Ég kann ekki að nefna töluna. Barátta bæjaryfirvalda á Seyðisfirði fyrir að verja störfin heima var hetjuleg. Það eru ekki neinar smáræðis upphæðir, virðulegur forseti, sem verið er að tala um í þessu sambandi. Ég get einnig nefnt þá varnarbaráttu sem hefur átt sér stað á Vopnafirði þar sem sveitarfélagið er mjög mikið innviklað í rekstur fyrirtækisins þar og barðist hetjulega líka í sumar til að kaupa til baka hlutabréfin sem seld voru Tanga fyrir rúman milljarð króna. Þetta er lítið sveitarfélag.

Sveitarstjórnarmenn á Vopnafirði gerðu sér grein fyrir því hvað mundi gerast ef þetta gengi eftir. En það er svo, virðulegi forseti, að kannski hafa ekki öll sveitarfélög eða allar sveitarstjórnir þann kraft eða þann grunn að gera það sem gert hefur verið á Seyðisfirði og Vopnafirði.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir það sem auðvitað snýr líka að íslenskum sjávarútvegi, þ.e. þær miklu breytingar sem eru að verða á mörkuðum erlendis í sambandi við markaðssókn okkar. Við megum ekki eingöngu hugsa um kerfið til að sækja fiskinn og sem við deilum töluvert um eins og ég hef nefnt. Við verðum líka sem Íslendingar, sem þjóð, að snúa okkur að því og fylgjast með því hvað er að gerast á mörkuðunum. Það gerir það kannski að verkum að menn verða að endurskoða stefnu sína reglulega, stefnu í sjávarútvegsmálum og fiskveiðistjórnarmálum. Menn verða að skoða hvað er að gerast.

Það er staðreynd að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs er að versna. Það er þannig. Það er ekki bara sterk staða gjaldmiðla sem því veldur. Launakostnaður, olíukostnaður og flutningskostnaður er miklu meiri en við þekkjum annars staðar. Það er staðreynd, virðulegi forseti, að sjófrystur karfi er jafnvel fluttur út frá Íslandi alla leið til Kína og unninn þar. Þar er launakostnaður 7.500 kr. á mánuði. Fiskurinn er svo fluttur aftur á Evrópumarkað í samkeppni við okkur. Á þessum fundum sem ég hef vitnað til hefur verið sýnt hvernig fyrirtæki, t.d. Findus sem er mjög stórt í sölu á sjávarafurðum, selja fisk frá Kína sem kemur héðan frá Íslandi þar sem nánast enginn munur er á nema tveir litlir stafir aftan á umbúðunum. Þetta segi ég aðeins, virðulegi forseti, vegna þess að þetta þurfum við að hafa í huga. Við verðum að halda vöku okkar gagnvart því að þessi ógn, sem ég vil kalla svo, frá Kína ryðst inn á markaði sem við höfum verið að byggja upp og erum á. Forskot okkar hvað varðar gæði er því t.d. mikið að minnka. Hvað gerist svo ef Rússar og Evrópusambandið gera nýjan tollasamning og Rússafiskurinn, sem er fluttur og seldur til Kína, unninn þar og kemur aftur til Evrópu með tolli, er samt ódýrari? Hvað gerist ef Evrópusambandið og Rússar gera nýjan tollasamning?

Ég er með öðrum að segja, virðulegi forseti, að í fiskveiðistjórnarkerfi okkar, sem veldur þessum miklu deilum í þjóðfélaginu, eru kostir. En þar eru líka töluverðir gallar. Það er synd að aldrei skuli takast að ná um það meiri sátt að búa til kerfi sem hvað mest sátt verður um, fiskveiðistjórnarkerfi til langframa en ekki til árs í senn eins og núna. Það hefur m.a. komið fram í umræðu um markaðssetningu okkar á fiski og sölu út að stöðugt og jafnt framboð okkar gefur mikið forskot á t.d. Norðmenn sem virðast alltaf vera í ólympískum veiðum svo notuð séu orð sem hálfpartinn á að fara að taka upp núna og ég ætla að koma að hér á eftir, annaðhvort núna eða í seinni ræðu um frv. sem til umræðu er. Það virðist nefnilega eiga að fara út í ólympískt kapphlaup við að ná í svo og svo mikinn afla. Það er það sem við höfum haft mikið fram yfir Norðmenn.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins í lokin að fara inn á frv. sem til umræðu er. Ég sé að hæstv. sjútvrh. er hér og vil nota tækifærið fyrst til að spyrja hann einnar spurningar, þ.e. um b-lið 2. gr. þar sem talað er um það sem hann hefur leyfi til að úthluta krókaaflamarksbátum sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta, eins og hér stendur, með leyfi forseta:

,,Á fiskveiðiárinu 2005--2006 skal ráðherra úthluta með sama hætti ...``

Já, þar er þetta skorið niður um helming.

Ég vil t.d. spyrja um staði eins og Bolungarvík, Flateyri og Tálknafjörð vegna þess að mér skilst að þar sé mjög mikil útgerð krókaaflamarksbáta. Hver verður skerðingin á þessum þremur stöðum t.d. við það að þessi grein verður fullkomlega komin til framkvæmda eins og hér er gert ráð fyrir? Í athugasemdum með frv. segir að það eigi að taka þetta burt í tveimur áföngum. Mig langar að fá upplýsingar um það. Svo virðist vera að á þessum stöðum sem eru töluvert þekktir fyrir smábátaútgerð og línubáta muni töluvert skerðast. Mig langar að heyra þær tölur frá hæstv. ráðherra vegna þess að á nýlegri ferð minni á þessu svæði hef ég heyrt ákveðna tölu. Þarna verður kapphlaup um að ná í þessi 3.375 tonn eða hvað það nú er ársfjórðungslega eða rúm 800 tonn á hverjum ársfjórðungi.

[21:45]

Segjum að veður á Vestfjörðum verði válynd og gefi ekki til sjósóknar og þeir nái ekki í upphafi þess ársfjórðungs að róa og sækja þennan afla en aðrir nái við betri aðstæður til sjósóknar að fiska vel. Hæstv. sjútvrh. fer upp í brú og hringir vafalaust bjöllu til marks um að kapphlaupinu sé lokið á þeim ársfjórðungi en hver verður þá ávinningurinn?

Ég vil jafnframt spyrja hæstv. sjútvrh.: Hér er að hluta verið að taka upp sóknardagakerfi. Er hann á þeirri skoðun að það sé til framdráttar? Mig minnir að ég hafi heyrt talað um að menn sæju ýmsa vankanta á sóknardagakerfinu, m.a. fyrir kosningar. Sá sem hér stendur gerir það reyndar líka. En þarna er í raun efnt til kapphlaups eða kappróðurs á hverjum ársfjórðungi til að sækja þennan afla til að vera þátttakendur í þessari 16% ívilnun.

Í þriðja lagi finnst mér grábölvað við þetta frv. og kannski einna verst að byggðakvótinn skuli lagður niður eins og hér er boðað með breytingu á 9. gr. Ég vil hafa ákveðið magn kvóta tekið til ráðstöfunar í byggðakvóta eins og gert hefur verið. Ég er ekki sammála hæstv. sjútvrh. um að alls staðar spretti illdeilur og læti út af ráðstöfun byggðakvóta. Hins vegar hefur stundum læðst að mér sá grunur að hæstv. sjútvrh. og margir í hans flokki séu ánægðir með það þegar deilur rísa vegna byggðakvóta. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Hægt er að nefna byggðarlög þar sem mikil sátt hefur verið um byggðakvóta. Ég og hv. þm. Halldór Blöndal sátum fundi þingmanna kjördæmisins og hlustuðum á hvernig fulltrúar Breiðdalshrepps lýstu því hvernig byggðakvótinn til þeirra hefði verið algjör guðsgjöf, ef svo má að orði komast. Þeir hafa enga tryggingu fyrir því að fá þennan kvóta. Þegar hæstv. sjútvrh. sagði áðan að hann væri búinn að úthluta öllu samkvæmt 9. gr. í desember, þegar jafnskammt er liðið á fiskveiðiárið og raun ber vitni, verð ég að segja eins og er, herra forseti, að mér fannst staðfest að þarna hefði vitlaus leið verið valin.

Spurning mín til hæstv. sjútvrh. í lokin er einfaldlega: Hvað ætlar hæstv. sjútvrh. að gera það sem eftir lifir af þessu fiskveiðiári ef einhver áföll koma upp í ákveðnum byggðarlögum, eða verður loðnubrestur eða rækjubrestur? Hvernig á að bregðast við því þegar búið er að tæma 9. gr., ef svo má að orði komast?