Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:56:23 (3111)

2003-12-10 21:56:23# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:56]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsfl., ræðir hér um stöðugleika. (BJJ: Á kvótasviðinu.) Hver var stöðugleikinn í sumar á Raufarhöfn, af því að við komum úr sama kjördæmi? Hver var stöðugleikinn síðla sumars á Seyðisfirði? Hver var stöðugleikinn í sumar á Vopnafirði? Hvað kostaði það Vopnfirðinga að kaupa eignarhaldið á fyrirtækinu aftur til baka? Hvað kostaði það og hver var stöðugleikinn þar?

Eigum við að fara aftur í stöðuleikann í þeim ágæta bæ Siglufirði ekki alls fyrir löngu (Gripið fram í.) þegar menn voru að missa eignarhaldið á fyrirtæki í bænum og fram fór ákveðin söfnun á hlutabréfum? (Gripið fram í: Þórshöfn.) Það þurfti að kaupa til baka hlutina. Hver væri stöðugleikinn í þeim ágæta bæ ef menn sem höfðu haft eignarhaldið í þessu fyrirtæki hefðu ekki tekið sig til og keypt það til baka? Hver hefði stöðugleikinn verið ef þau áform sem þá voru, þar sem átti m.a. að nota mikla kvótapeninga sem komu út úr öðru kvótafyrirtæki, hefðu gengið eftir? Hver hefði stöðugleikinn verið í því byggðarlagi? Ég spyr.