Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:58:23 (3112)

2003-12-10 21:58:23# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:58]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég virðist hafa slegið á frekar viðkvæman streng í hjarta hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Það er ljóst að stefna Samf. er að fyrna allan kvóta af Útgerðarfélagi Akureyrar og þeim fyrirtækjum sem hafa byggt upp myndarlega landvinnslu á mörgum stöðum um allt land.

Ég spyr á móti: Hvað verður um atvinnuöryggi þess fólks sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum? Ég get frætt hv. þm. um eitt, að stöðugleikinn á þeim stöðum sem hv. þm. nefndi áðan hefði ekki orðið meiri ef menn hefðu ætlað að fyrna veiðiheimildir á þeim stöðum. Það er alveg á hreinu. Ég vil bara að hv. þm. svari mér því hver stefna Samf. er í kvótamálum. Hann svaraði því ekki í fyrra andsvari og nú vil ég fá að vita um stefnu Samf. í sjávarútvegsmálum.