Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:05:51 (3117)

2003-12-10 22:05:51# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:05]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla að minnast á ræðu sem flutt var hér fyrr í dag, en það var mjög leitt að heyra jafnágætan, vandaðan, virðulegan og háttvísan þingmann og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson snúa út úr ræðu hv. þm. Steinunnar Kristínar Pétursdóttur sem var flytja sína fyrstu ræðu hér, jómfrúrræðu. Hv. þm. var sökuð um það að vera andvíg línuívilnun. Það kom aldrei fram í ræðu hennar. Og það er mjög leitt að heyra jafnreyndan og ágætan þingmann, sem hv. 9. þm. Norðvest. er, snúa út úr fyrstu ræðu hv. þm. Steinunnar Kristínar Pétursdóttur. En hún sagði að við í Frjálsl. hefðum aldrei stutt línuívilnun. Það er alveg rétt hjá henni. Línuívilnun er hugarfóstur stjórnarflokkanna sem báðir samþykktu á landsfundi og notuðu óspart sem beitu fyrir kjósendur. Þetta var það sem hún sagði.

Það er líka annað. Menn hafa verið að krefja þingmenn Samf. um afstöðu þeirra til línuívilnunar. Ég vil leyfa mér að krefja hv. þm. Hjálmar Árnason um hver afstaða hans er. Ég gat ekki lesið betur í Fréttablaðinu fyrr í vikunni en að hann væri andvígur línuívilnun. Hún væri bara óþörf vegna þess að Kínverjar hefðu komið því til leiðar út af þeirra ódýra vinnuafli að það væri mun hagstæðara nú en áður að veiða fisk á króka og þess vegna væri óþarfi að fara í línuívilnun. Það væri því mjög áhugavert að heyra hvort hv. þm. Hjálmar Árnason hafi snúið við blaðinu.

Engu að síður tel ég að fagna beri þessu frv., sérstaklega í ljósi þess að núna er einu kosningaloforðinu færra sem stjórnarflokkarnir hafa svikið. En eftir standa þó nokkur svikin kosningaloforð, ríkisstjórnin hefur hækkað skatta en ekki lækkað skatta og nú er hún að boða enn eina skattahækkunina, skattahækkun á sjómenn, það á að taka af þeim sjómannaafsláttinn. Við getum farið hér yfir fleiri svik. Það eru Héðinsfjarðargöngin og 500 milljónirnar sem hafðar eru af öryrkjum. Það átti að gera sérstaklega vel við húskaupendur, þeim var lofað 90% lánum, en í staðinn er verið að boða skerðingu á vaxtabótum.

Herra forseti. Við í Frjálsl. styðjum alls ekki línuívilnun ef hún verður á kostnað dagabáta og byggðakvóta. Ég vonast til þess að þetta frv. taki breytingum í nefnd svo tryggt verði að hvorki dagabátar né byggðakvótinn skerðist. Hvers vegna á ekki að skerða byggðakvótann? Þess ber að geta að við í Frjálsl. höfum aldrei verið neinir sérstakir talsmenn byggðakvóta en á meðan þetta óréttláta kvótakerfi er við lýði verður að tryggja að byggðakvótarnir verði óskertir. Núna fá staðir sem liggja vel að fiskimiðum ekki að njóta nálægðar sinnar við miðin, heldur er búið að skekkja samkeppnisstöðu sjávarútvegsfyrirtækja með stjórnvaldsaðgerðum sem miða að því að færa þeim sem fyrir eru í greininni óveiddan fisk til eignar um aldur og ævi.

Herra forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Jóhanni Árælssyni sem benti á fyrr í umræðunni að verið væri að færa þeim sem fyrir eru í greininni eigið fé upp á mörg hundruð milljarða. Það gefur augaleið að þetta leiðir aðeins til eins, það er engin nýliðun í greininni og að stór fyrirtæki verða stærri. Byggðakvótinn hefur verið plástur á vont kerfi og nú er línuívilnun að verða enn einn plásturinn. Og ekki skánar kerfið.

En hvað ætlar meiri hlutinn á hinu háa Alþingi að gera? Að bæta vont kerfi með því að rífa annan plástur, þ.e. byggðakvótann, til þess að líma yfir nýtt sár sem kvótakerfið hefur skilið eftir sig. Í málflutningi stjórnarliða hefur reyndar verið mjög óljóst hvort skerða eigi byggðakvótann eða ekki. Ef frv. er lesið liggur það ljóst fyrir að skerða eigi byggðakvótann en í málflutningi þeirra er samt eitthvert annað hljóð.

En hvað mun gerast við tilflutninginn á þessum plástrum? Hvað mun gerast ef byggðakvótinn verður skertur? Ég mun lýsa því hér með því að grípa niður í bréf frá Ágústi V. Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Kolku, sem er fiskvinnsla sem nýlega var komið á legg en hún er ekki í tengslum við útgerð og hefur notið góðs af byggðakvótanum. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Það er klárt að framtíð Kolku er mjög óljós ef það á að taka byggðakvótann og setja í nýjan pott. Ég vona að þingmenn hafi þá gæfu að semja ekki yfir okkur ný lög sem eyðileggja það starf sem hafið er á Hofsósi, heldur styrki okkur og fleiri sem eru að gera sitt besta til að halda atvinnu í byggðum þar sem gráðugir útgerðarmenn hafa selt kvótann frá og eru að reyna að taka byggðakvótann frá okkur.``

Herra forseti. Í frv. kemur fram að hæstv. ráðherra skuli úthluta veiðiheimildum en ekki Byggðastofnun og að hlutur hennar sem á að úthluta minnki. Ég skil ekki hvers vegna verið er að minnka hlutann sem Byggðastofnun á að úthluta, stofnun sem hefur það hlutverk að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Ég tel að Byggðastofnun sé síður en svo verr fallin til þess verks og sérstaklega í ljósi þess að sjútvrh. var í sumar sem leið átalinn fyrir mjög lélega stjórnsýslu við úthlutun byggðakvóta af umboðsmanni Alþingis.

Ég held að við verðum að horfast í augu við það að okkar heimsfræga fiskveiðikerfi er mjög lélegt og að línuívilnun og byggðakvóti er ekkert annað en lélegur plástur á ónýtu kerfi. En hvað er að þessu íslenska kerfi? Ég ræddi hér fyrr í máli mínu að það kemur í veg fyrir nýliðun en veigamesti galli þess er þó sá að þorskaflinn núna er helmingi minni en fyrir daga kerfisins. Það er eitthvað að þessu kerfi. Hvers vegna erum við að halda í kerfi sem skilar okkur helmingi færri þorskum á land en fyrir daga kerfisins? Menn verða að fara að svara þeirri spurningu.

Í upphafi kvótakerfisins var gefið í skyn af Hafrannsóknastofnun að þorskaflinn yrði á bilinu 400--500 tonn ef farið yrði að ráðum Hafró. Aflinn nú, 20 árum síðar, er rétt rúm 200 þúsund tonn og hefur jafnvel verið enn minni hér fyrir skömmu.

Annað sem gerst hefur með þessu kvótakerfi, sem er mjög alvarlegt, er að það hefur búið til glæpamenn. Það er verið að setja vinnandi fólk í mjög erfiða stöðu. Fyrir ekki svo ýkja löngu var íslenskur skipstjóri dæmdur til einnar milljónar króna sektar í ríkissjóð fyrir að henda 53 dauðum þorskum í sjóinn. Dómurinn er allsérstakur, sérstaklega vegna þess að við, sem höfum eitthvað kynnt okkur sjávarútveg, vitum að brottkast er gífurlegt vandamál. Þess vegna ættum við að leita annarra leiða en að beita refsivendi, nær væri að reyna að lagfæra kerfi sem hvetur til brottkasts, en könnun frá Gallup hefur m.a. sýnt að tíunda hverjum þorski er hent aftur í sjóinn. Og svo er annað sem er að þessu kerfi og það er að æ færri sjá bjarta framtíð í að vinna í sjávarútvegi. Það eru æ færri sem hefja nám í greininni. Nemum í Stýrimannaskólanum hefur fækkað, og það er nú svo undarlegt að það er búið að loka báðum fiskvinnsluskólum landsins. Það er ótrúlegt hjá þjóð þar sem yfir 60% af útflutningsverðmætum koma frá þessari atvinnugrein, að menn skuli loka báðum fiskvinnsluskólunum. Mér finnst þetta undarlegt.

[22:15]

Það væri ákaflega fróðlegt að heyra hvað hæstv. sjútvrh. finnst um þetta. Finnst honum þetta bara í lagi? Það er enginn að læra hvernig á að gera að fiski og meðhöndla afla. Löndun fram hjá vigt, brottkast og rangar aflaskýrslur verða til þess, eins og ég rakti hér fyrr í andsvari, að vísindamenn setja rangar tölur inn í reiknilíkönin sem eru síðan notuð við veiðiráðgjöf. Annað sem kvótakerfið hefur gert, það hefur mengað hugarfar landsmanna. Það er allsérstakt að menn í þessari umræðu telja, að ef einhver fær veiðiheimild fyrir vestan og á Ísafirði þá sé verið að taka frá einhverjum í Vestmannaeyjum. Það er mjög undarleg líffræði að halda það t.d. að ýsa sem er veidd við Vestmannaeyjar eigi að dragast frá veiðiheimildum í Eyjafirði. Það stenst ekki við nánari skoðun.

Ég tel að við verðum að skoða aðrar leiðir með opnum huga og miklu betri fiskveiðiráðgjöf. Það er bara della að fara út í þetta. Færeyingar hættu að nota kvótakerfið árið 1996 og nota í staðinn sóknarkerfi. Þeim vegnar miklum mun betur. Þar hefur botnfisksafli tvöfaldast en hér hefur hann orðið helmingi minni eftir að við tókum upp kvótakerfið.

Við höfum séð að kvótakerfið hefur ekki skilað okkur nokkrum sköpuðum hlut nema illdeilum og byggðaröskun. Er þá ekki kominn tími til að skoða aðrar leiðir og skoða leiðir sem hafa gengið eftir, svo sem í Færeyjum? Er nokkurt vit í öðru?

Ég get ekki annað séð en að við ættum að skoða í alvöru að fara aðrar leiðir og hætta þessum plástrum.