Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:17:37 (3118)

2003-12-10 22:17:37# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, BJJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:17]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Meginatriði þessa frv. er að lagt er til að tekin verði upp svokölluð línuívilnun fyrir dagróðrabáta, enda sé línu beitt í landi.

Sjávarútvegsmál voru mikið í umræðunni fyrir síðustu kosningar. Stjórnarandstaðan fór mikinn í umræðunni og stjórnarandstöðuflokkarnir áttu það allir sameiginlegt að vilja fyrna aflaheimildir og úthluta þeim upp á nýtt. Miðað við þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag og orðaskipti á milli mín og hv. þm. Kristjáns L. Möllers, fullyrði ég enn og aftur að ef sú stefna hefði orðið ofan á væri mikil ringulreið og óvissa í íslensku þjóðfélagi. Sú mikla fyrning sem lögð var til hefði gert stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins trúlega gjaldþrota á nokkrum árum, fyrirtæki sem eru kjölfestan í mörgum byggðarlögum landsins og þúsundir manna vinna við. Framsfl. og Sjálfstfl. töluðu fyrir aukinni sátt um íslenskan sjávarútveg og var ýmislegt lagt til í þeim efnum og hér er ein birtingarmynd þeirra fyrirheita, svokölluð línuívilnun. Ég vil leggja áherslu á að hér er verið að tala um fjöregg þjóðarinnar, þjóðarauðlindina, sjávarútveg, þann atvinnuveg sem færir þjóðarbúinu tugi milljarða á ári hverju og ég prísa mig sælan yfir því að Samf., Vinstri grænir og Frjálsfl. fengu ekki brautargengi til þess að leggja sjávarútveginn og þar með landsbyggðina og efnahag landsins í rúst.

En það sem ég vil leggja áherslu á, hæstv. forseti, í máli mínu er hinn svokallaði byggðakvóti. Það stendur skýrt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Leitast verður við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða til dæmis með því að kanna kosti þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila, að nýta tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar þeirra, takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins, auka byggðakvóta og taka upp ívilnun fyrir dagróðrabáta með línu. Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá.`` Þar með lýkur tilvitnun, hæstv. forseti.

Ég vil ítreka það að samkvæmt frv. sem hér liggur fyrir má ekki skerða heildarúthlutun byggðakvótans og ég vænti þess að það frv. sem hér er til umræðu muni ekki skerða heildarúthlutun á byggðakvóta.

Við horfum til þess að byggðakvóti hefur haft úrslitaáhrif á tilvist margra byggðarlaga á landsbyggðinni. Við getum tekið skýr dæmi um það. Á Breiðdalsvík er til að mynda rekið öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem byggir tilvist sína á úthlutuðum byggðakvóta. Á Hofsósi er rekið fyrirtæki sem byggir tilvist sína á byggðakvóta, fyrirtæki sem hefur 20 manns í vinnu og dæmin eru fleiri. Bakkafjörður, Þingeyri, Bíldudalur, Flateyri og fleiri byggðarlög sem byggja m.a. tilvist sína á úthlutuðum byggðakvóta. Ég legg áherslu á að það frv. sem hér er til umræðu má alls ekki leiða það af sér að byggðakvóti skerðist.

Annars er mikilvægt að halda því til haga að hér erum við að tala um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Ég hlýddi á mál hv. þm. Jóns Bjarnasonar í dag, því miður er hann ekki hér, en mörgum stjórnarandstöðuþingmönnum hefur verið tíðrætt um að það sé mjög mikið óöryggi í atvinnumálum starfsmanna sjávarútvegsfyrirtækja. Ég fullyrði enn og aftur að sú leið sem stjórnarandstöðuflokkarnir lögðu til með fyrningu aflaheimilda á þau fyrirtæki sem eru nú þegar í greininni, hefði sett hvern einasta starfsmann í fiskvinnslu í mikla óvissu um sína framtíð á vinnumarkaði. Það er víst. Ég vil hrósa Frjálsl. og Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fyrir það að hafa talað mjög skýrt um hver þeirra stefna sé í sjávarútvegsmálum.

Í andsvari áðan við hv. þm. Kristján L. Möller spurði ég hann í fjórgang hver stefna Samf. væri í sjávarútvegsmálum. Fyrir kosningar, eins og ég hef áður sagt, reið Samf. um héruð og lagði til að veiðiheimildir fyrirtækjanna yrðu fyrndar í áföngum, á 10--20 árum var oft rætt um á fundum sem ég sat á með hv. þm., m.a. Einari Má Sigurðarsyni og Kristjáni Möller. Ég endurtek því spurningar mínar: Er það vilji Samfylkingarinnar, gott að það liggi fyrir, að kvóti til að mynda fyrirtækja eins og Samherja, Útgerðarfélags Akureyrar, Tanga á Vopnafirði, Eskju, Síldarvinnslunnar, Þormóðs ramma -- Sæbergs, þar sem þúsundir manna vinna og byggja sína lífsafkomu á því að fyrirtækin gangi vel og hafi trausta tilveru í lagaumhverfinu, verði tekinn til baka? Samkvæmt þeim málflutningi sem stjórnarandstaðan lagði til fyrir kosningar, er alveg ljóst að hér værum við trúlega að ræða um hversu há fyrningarprósentan ætti að vera til þess að skerða aflaheimildarnar af þessum fyrirtækjum. Ég spyr enn og aftur: Hver er stefna Samf. í þessu máli?

Ég ítreka það að hér er verið að efna fyrirheit sem við gáfum fyrir síðustu kosningar, að taka upp línuívilnun fyrir dagróðrabáta. Því miður heyrist mér að hv. stjórnarandstaða ætli ekki að styðja okkur stjórnarliða í þessu máli sem mun styrkja sjávarbyggðir víða um land. En ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frumvarp.