Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:24:08 (3119)

2003-12-10 22:24:08# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, GMJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:24]

Grétar Mar Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á hv. þm. Birki Jón Jónsson, að ef það verður breyting á fiskveiðistjórnarkerfinu eða breyting á einhverju, sé fólk í fiskvinnslu í lausu lofti með störf sín. Hvernig hefur þetta verið eftir kosningar á Raufarhöfn, Þórshöfn, Seyðisfirði, Vopnafirði og fleiri stöðum? Hvar er atvinnuöryggið hjá fólkinu þar? Ertu alveg gjörsamlega ... ég vil nú ekki segja ... ætlaði nú ekki (Gripið fram í: Genginn af göflunum.) genginn af göflunum með þetta? Ég bara á ekki til eitt einasta orð. Atvinnuástand hefur verið í upplausn hjá þessu fólki eftir kosningar, þrátt fyrir öll loforðin ykkar.

Það er verið að skerða byggðakvótann í frv. sem liggur fyrir og við erum að ræða núna. Það er verið að skerða byggðakvóta og það er einmitt eitt af kosningaloforðunum ykkar að bæta við byggðakvóta en ekki að svíkja eða skerða hann. Málflutningurinn er með ólíkindum og ég bara verð að lýsa furðu minni á honum.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þm. á að ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann.)

(Gripið fram í: Var hann ekki að því?)