Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:25:46 (3120)

2003-12-10 22:25:46# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:25]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. fór hér mikinn, eðli málsins samkvæmt, enda hefur þetta verið eitt af höfuðáherslumálum Frjálsl. til þessa og verður að ég tel um alla eilífð. En ég vil svara þeim spurningum sem hv. þm. varpaði fram um atvinnuöryggi fólks almennt. Ég vil byrja á því að minna hann á að það hefur alla tíð verið óöryggi í atvinnumálum, fyrir tíð kvótakerfisins, menn fylgdu bátum sínum út úr heilu sveitarfélögunum og eftir stóð fólkið. Það er ekkert nýtt.

Ég vil spyrja hv. þm.: Telur hann að ef við förum leið Frjálsl. í þessu máli að við séum þá að auka atvinnurétt þeirra þúsunda manna sem starfa í þessum fyrirtækjum hringinn í kringum landið? Erum við ekki að ógna því atvinnuöryggi sem það fólk býr við ef við ætlum að ganga gegn þeim fyrirtækjum sem nú þegar reka myndarlegan sjávarútveg og hafa þróað íslenskan sjávarútveg svo að fyrirmynd er að? Það er horft til Íslands. Ég nefni sem dæmi fiskvinnslu Samherja á Dalvík. Heldur hv. þm. að atvinnuöryggi fólksins, til að mynda á Dalvík í fiskvinnslunni hjá Samherja, yrði meira ef við mundum leggja það til að fyrna kvóta Samherja á, hvað eigum við að segja, 10--15 árum? Mundi atvinnuöryggið aukast við það?