Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:31:04 (3124)

2003-12-10 22:31:04# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:31]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. beindi fyrirspurnum til mín. Ég skal fúslega viðurkenna að kvótakerfið er ekki einhver fullkomnun. Það hefur ókosti og trúlega getum við verið sammála um að nýliðun í greininni mætti vera meiri. Við getum verið sammála um það. En það sem stjórnarflokkarnir lögðu af mörkum í kosningabaráttunni í umræðunni um sjávarútvegskerfið var að reyna að skapa meiri sátt um það kerfi. Við töluðum fyrir línuívilnun, takmörkun á framsali og öðru í þeim dúr. Við erum að reyna að bæta það kerfi sem við búum við sem ég segi að sé gott. Aðrar þjóðir horfa til okkar kerfis (GMJ: Það er kjaftæði.) og hvernig það er rekið.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru rekin með hagnaði. Það er af sem áður var, fyrir daga kvótakerfisins, ég segi það aftur, þegar vart leið sá mánuður að fiskvinnslufyrirtæki færi ekki á hausinn. (Gripið fram í.) Hvaða áhrif hafði það á rekstur bankakerfisins í landinu og þau kjör sem bankar gátu veitt viðskiptavinum sínum? Þetta fór allt á einhvern afskriftareikning. Einhvern veginn urðu þeir að hala inn á þann afskriftareikning. Ég segi því: Það kerfi sem við búum við í dag er mjög gott. Það er þjóðhagslega hagkvæmt. En ég tek undir með hv. þingmönnum þegar þeir segja að það sé ekki fullkomið. En hvenær munum við skapa kerfi sem algjör sátt ríkir um? Hvenær munum við skapa kerfi um þjóðarauðlindina, sem fiskveiðarnar eru? Sá dagur mun aldrei koma. Ég óska enn og aftur eftir stefnu Samf. í sjávarútvegsmálum. Hún hefur ekki enn komið fram við þessa umræðu.