Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:53:32 (3133)

2003-12-10 22:53:32# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:53]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt eitt augnablik að hv. þm. ætlaði í andsvar við mig en hann virðist hafa hugsað sér að fara í andsvör við einhverja aðra úr þingflokknum líka.

Ég verð að segja alveg eins og er að það sem mér varð að orði --- ég verð að viðurkenna að ég verð svolítið pirraður á því að menn séu sífellt að ganga upp í ræðustól til að spyrja spurninga sem þeir vita nákvæmlega svörin við, þar sem við höfum lagt fram frv. hvað eftir annað í þinginu og farið yfir það hvað við viljum og hv. þm. kallaði hér þjóðnýtingarstefnu. Það er dálítið gaman að því að hv. þm. skuli taka sér það orð í munn ef við viljum taka aftur til þjóðarinnar eignarhaldið á auðlind hennar, að þá ætli menn í ræðustól á Alþingi að kalla það þjóðnýtingu. Er það virkilega svo að það sé yfirleitt hægt að þjóðnýta þjóðareign? Og hvað hefur þá gerst á undan? Er hv. þm. að segja það hér, og ég vil að hann svari því, hæstv. forseti, að það sé búið að einkavæða þjóðarauðlindina? Eiga þeir sem eru núna atvinnurekendur í sjávarútvegi þjóðarauðlindina? Er það þá þannig að ef við ætlum að breyta þessu, þá þurfum við að framkvæma þjóðnýtingu? Ég held að þetta sé grundvallarspurning sem væri nær að ræða heldur en fara að ræða ræður annarra þingmanna í andsvari við mig.