Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:57:34 (3135)

2003-12-10 22:57:34# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:57]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek það sem ég hef sagt um línuívilnun. Ef hún á að vera, þá á hún að vera á forsendum lífríkisins. (Gripið fram í.) Og ég er á þeirri skoðun að það eigi að þróa þannig kerfi hér. Mér finnst ekki nein ástæða til þess að búa til reglur sem ívilna einu byggðarlagi fram yfir annað í landinu (GÞÞ: Ertu sammála þingmanninum?) og allar tillögur Samfylkingarinnar eru unnar út frá jafnræðissjónarmiðum og þannig er okkar frv. En það vakti athygli mína að hv. þm. smokraði sér fram hjá þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hann um þjóðnýtinguna. Er það virkilega svo að hv. þm. líti þannig á að hér sé búið að einkavæða auðlindina og að útgerðarmenn eigi Íslandsmið og það sé þá þjóðnýting ef menn breyti kerfinu? Er hv. þm. tilbúinn að koma og standa við þessi orð sín hér? Hann getur fengið orðið hérna og farið yfir þetta mál. Mér finnst það vera býsna langt gengið þegar menn ganga um og tala um þjóðarauðlindina með þeim hætti sem hv. þm. gerir. Tala um að það væri þjóðnýting að koma á reglum þar sem menn gæta jafnræðis til þess að leyfa aðgang að þessari auðlind þar sem atvinnurekendur gætu staðið hlið við hlið í samkeppninni um það að nýta hana. Ég held að það væri bara ágætt að hv. þm. færi yfir það hér. Hver er þessi eignarstaða? Hver er eignarstaðan?