Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:59:39 (3136)

2003-12-10 22:59:39# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:59]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið fjallað um þetta frv. í dag og ljóst er að um það ríkir mjög mikill ágreiningur, bæði innan þings og utan. Slíkt er jafnan fylgifiskur bótasaumsfrumvarpa af því tagi sem við erum að verða vitni að, þar sem ósátt ríkir um sjálfan grundvöllinn en reynt að bregðast við þeim vanda sem upp kemur hverju sinni líkt og menn setja plástur á sár.

Það sem ég vildi gera að umræðuefni er dagurinn eftir þennan dag, hverjar verða afleiðingarnar og hvernig verður tekið á þeim? Hvað verður til að mynda um byggðakvótann sem fyrirsjáanlega verður skertur og færður frá Byggðastofnun undir sjútvrh.? Hver verður framtíð dagabáta? Ljóst er að þeirra hlutur verður einnig skertur þótt ekki sé um það að finna ákvæði í þessum lögum. Allt er þetta samhengi sem verður að hafa í huga þegar gengið er til atkvæða um þetta frv. Og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum áherslu á framhaldið hvað þetta snertir, að þar verði tekið á vandaðan hátt á málum.

Í þeim fáu orðum sem ég ætla að hafa um þetta mál vil ég aðeins víkja að fullyrðingum sem komu fram í máli hv. þm. Framsfl., Birkis Jóns Jónssonar, þar sem hann vísað til sjávarútvegsstefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og sagðist óttast að hún, ef kæmi til framkvæmda, mundi grafa undan atvinnuöryggi í greininni. Hann hrósaði að vísu Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fyrir að hafa skýra stefnu og tala skýrt og ég vil segja það að þótt menn kunni að greina á um þessa stefnu þá verðum við aldrei sökuð um að setja fram sjónarmiðastefnu sem grefur undan atvinnuöryggi í sjávarútvegi. Um er að ræða tillögur sem settar eru fram af mikilli varfærni og hófsemi og reyndar hafa þær verið gagnrýndar fyrir það og við gagnrýnd fyrir það að fara of hægt í sakirnar. Í grundvallaratriðum byggist stefnan á því að endurskipuleggja sjávarútveginn til að tryggja eignarhald þjóðarinnar, það verði gert á 20 árum, um verði að ræða svokallaða fyrningu þar sem þriðjungur aflaheimilda fari á markað á landsvísu og þriðjungur gangi til byggðarlaga og verði bundinn við sjávarbyggðir umhverfis landið en við skiptingu veiðiréttindanna milli sveitarfélaganna verði byggt á vægi sjávarútvegs, veiða og vinnslu í atvinnulífi viðkomandi sjávarbyggða. Síðasta þriðjungnum ætlum við að vera hjá þeim fyrirtækjum sem hafa aflaheimildirnar nú með höndum en gegn umsömdu gjaldi.

Þetta er í grófum dráttum sú stefna sem við höfum sett fram og við að hlýða á þessar umræður kemur upp í hugann hve mikilvægt er að taka á þessum málum í grundvallaratriðum í stað þess að ráðast í bótasaum af því tagi sem þetta frv. er hluti af.

Ég legg áherslu á, herra forseti, að við staðnæmumst ekki við afgreiðslu þessa frv. sem slíks en hyggjum einnig að eftirmálunum og vöndum þar vel til verka.