Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 10:19:27 (3142)

2003-12-11 10:19:27# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[10:19]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Frv. það sem við ræðum er niðurstaða úr samkomulagi sem formaður Öryrkjabandalags Íslands gerði við hæstv. heilbr.- og trmrh. og það varð niðurstaða þeirra og viðræðna sem þar höfðu átt sér stað að með því að ráðstafa þeim milljarði sem samkomulagið gengur út á á þennan hátt, eins og frv. gerir ráð fyrir, væri best komið til móts við þarfir þeirra sem verða öryrkjar ungir að árum.

Hins vegar á fundi hv. heilbr.- og trn. var þessi spurning m.a. borin upp við þá sem sátu í starfshópnum og áttu að útfæra þetta en náðu ekki að skila tillögum til ráðherra, hvort það hefði sérstaklega verið skoðað að sumir í þessum hópi nytu framreiknaðra lífeyrisréttinda og aðrir ekki. Það kom fram í svörum gesta á fundi nefndarinnar að það hafði ekki sérstaklega verið gert. Hins vegar óskuðum við eftir á þeim fundi að fá upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins um þá öryrkja og hversu margir þeir væru sem ættu engan framreiknaðan rétt í lífeyrissjóði. En nú sem við stöndum hér og umræðan er hafin hafa okkur ekki enn þá borist þær upplýsingar.

Hins vegar kemur í ljós í töflu sem okkur barst, þar sem öryrkjarnir eru annars vegar aldursgreindir og aldursflokkaðir, síðan er meðaltal og fjöldi þeirra sem eru með tilteknar fjárhæðir í greiðslur frá lífeyrissjóðum, að það er fyrst við 30 ára aldurinn sem þeir ná um 20 þús. kr. En þetta eru bara meðaltalstölur.

Eins og ég sagði leggur meiri hluti nefndarinnar áherslu á að við endurskoðun í sumar verði þessu sérstakar gætur gefnar.