Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 10:22:36 (3144)

2003-12-11 10:22:36# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[10:22]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig þess ekki umkomna, öfugt við hv. þm. Pétur H. Blöndal, að leggja mat og dóm á vit og þekkingu þeir sem unnu þetta frv. Hins vegar er ljóst að þær upplýsingar sem hann vísar til lágu ekki fyrir hjá þeirri nefnd sem falið var að útfæra frv. Það kom skýrt fram á fundum nefndarinnar. Eins og ég greindi frá í fyrra svari mínu við andsvari hv. þm. liggja þær upplýsingar enn ekki fyrir hversu margir þeir öryrkjar eru sem eiga engan framreiknaðan rétt í lífeyrissjóð.

Hins vegar heyrist mér á hv. þm. að honum sé í mun að þeir öryrkjar sem verst standa og minnstar tekjur hafa til ráðstöfunar njóti sem mest af þeim milljarði sem hér er verið að ráðstafa til öryrkja. Ég get svo sannarlega tekið undir þau sjónarmið og ég vænti þess að í endurskoðuninni sem fram fer í sumar þegar lagt verður mat á það hvernig til hafi tekist þá verði m.a. kannað, eins og meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á, hverjir eiga ekki neinn rétt í lífeyrissjóð. Ég geri ráð fyrir að horft verði til þess ef einhverjar breytingar verða gerðar á þessu frv.