Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 10:26:23 (3147)

2003-12-11 10:26:23# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. minni hluta ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[10:26]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ágúst Ólafur Ágústsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta heilbr.- og trn.

25. mars sl. gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkomulag við formann Öryrkjabandalagsins um hækkun grunnlífeyris öryrkja. Um er að ræða margra ára baráttumál Öryrkjabandalagsins þar sem áhersla var lögð á hækkun grunnlífeyris fyrir þá sem yngstir verða öryrkjar. Í fréttatilkynningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um samkomulagið frá 25. mars 2003, samanber fylgiskjal VI í framkomnu nefndaráliti, kom fram að hækkunin skyldi taka gildi 1. janúar 2004. Einnig kom fram að ríkisstjórnin hefði samþykkt samkomulagið á fundi þennan sama dag og jafnframt að gert væri ráð fyrir að skipaður yrði starfshópur sem gerði endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar í samræmi við samkomulagið sem fæli í sér eftirfarandi:

Stigið yrði fyrsta skrefið til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fengju þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins sem næmi allt að tvöföldun grunnlífeyris.

Þeir sem verða öryrkjar seinna á lífsleiðinni fengju hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri, þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fengju grunnlífeyri sem næmi sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.

Þá kom jafnframt fram í fréttatilkynningunni að samkvæmt útreikningum sérfræðinga ráðuneytisins yrði kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytinguna rúmur 1 milljarður kr. á ári. Í útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins, samanber fylgiskjal XII, var hins vegar gert ráð fyrir kostnaði vegna þessa að upphæð 1.528,8 millj. kr. en þar var einnig skoðaður möguleiki á að 16--17 ára bótaþegar yrðu teknir með.

Talsverðar deilur hafa orðið um hvað hafi falist í samkomulagi heilbrigðisráðherra og Öryrkjabandalagsins. Því er rétt að athuga hvað fjölmiðlar sögðu felast í samkomulaginu eftir blaðamannafund heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og formanns Öryrkjabandalagsins sem haldinn var 25. mars 2003.

Í umfjöllun Morgunblaðsins 26. mars 2003, samanber fylgiskjal III, daginn eftir blaðamannafundinn segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt samkomulaginu nemur hækkunin/lækkunin rúmum 400 kr. fyrir hvert ár á aldursskeiðinu 18--67 ára, eftir því hvenær viðkomandi er metinn til örorku. Sá sem verður öryrki 18 ára eða yngri fær í dag 20.630 kr. í grunnlífeyri en fengi samkvæmt samkomulaginu 41.260 kr. Sá sem verður fyrir örorku 56--57 ára gamall fengi rúmlega 4 þús. kr. hækkun, 46--47 ára fengi rúmlega 8 þús. og sá sem er 36--37 fengi tæpar 13 þús. Sá sem metinn er til örorku 26--27 ára fengi tæpar 17 þús. og hjá yngsta hópnum er hækkunin sem fyrr segir tæpar 21 þús. kr.``

Samkvæmt frumvarpinu mun hins vegar 56 ára öryrki fá aldurstengda örorkuuppbót sem nemur 516 kr. en hefði fengið rúmar 4 þús. kr. ef samkomulaginu hefði verið fylgt eftir.

Ekki er heldur samræmi milli frumvarpsins og umfjöllunar Ríkisútvarpsins um samkomulagið frá 25. mars 2003, samanber fylgiskjal VII. Í frétt Ríkisútvarpsins segir, með leyfi forseta:

,,Grunnlífeyrir þeirra sem verða öryrkjar 67 ára verður sá sami og hjá ellilífeyrisþegum. Hann hækkar hins vegar um rúmar 400 krónur á ári og verður hærri því yngri sem viðkomandi missir starfsorkuna.``

Svipað kom fram í fréttum Stöðvar 2, samanber fylgiskjal VIII, 25. mars 2003 en þar var sagt, með leyfi forseta:

,,Grunnlífeyrir þeirra sem verða fyrir örorku 18 ára og yngri hækkar um 20 þús. kr. eða tvöfaldast frá því sem nú er. Hækkunin verður minni í réttu hlutfalli við aldur öryrkja sem nemur rúmum 400 kr. fyrir hvert aldursár uns grunnlífeyri ellilífeyris er náð við 67 ára aldur.``

[10:30]

Þessum skilningi Morgunblaðsins, Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 var ekki mótmælt af hálfu ráðherra eða ríkisstjórnarflokkanna en ljóst er að framlagt frv. er ekki í samræmi við lýsingar fjölmiðlanna á samkomulaginu eftir blaðamannafund heilbr.- og trmrh. og formanns Öryrkjabandalagsins.

Samkvæmt frv. lækkar aldurstengd örorkuuppbót talsvert meira en um rúmar 400 kr. fyrir hvert aldursbil. Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins og því samkomulagi sem Öryrkjabandalagið, Morgunblaðið, Ríkisútvarpið og Stöð 2 töldu að hefði komist á á milli heilbrrh. og Öryrkjabandalagsins átti 44 ára gamall öryrki að fá aldurstengda örorkuuppbót að upphæð 9.684 kr. en samkvæmt frv. fær viðkomandi einungis 1.032 kr.

Í frétt í Morgunblaðinu 28. nóvember 2003, samanber fylgiskjal V, kom fram skilningur heilbr.- og trmrh. á samkomulaginu. Þar stóð m.a., með leyfi forseta:

,,Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp til að útfæra breytingarnar og gera endanlegar tillögur að breytingum á lögum. Fór hópurinn m.a. yfir kostnað við breytingarnar og fékk ráðherra nýtt kostnaðarmat í hendur þar sem í ljós kom að heildarkostnaðurinn er talinn um 1.500 milljónir kr.

Niðurstaðan var því sú að sögn ráðherra að greiða þyrfti hækkanirnar sem um var samið í áföngum, 66% koma til greiðslu um næstu áramót og afgangurinn ári síðar.``

Í sömu frétt Morgunblaðsins er haft eftir ráðherra, með leyfi forseta:

,,Ég stend að fullu við það sem ég vissi réttast þá [þegar samkomulagið var gert]. Síðan hef ég einsett mér að uppfylla samkomulagið. Við munum breyta lögum í samræmi við það sem samkomulagið kveður á um, við munum borga strax um áramótin það sem samkomulagið hljóðaði upp á þegar það var gert og greiða síðan viðbótina. Kerfisbreytingin verður lögfest og hún er komin til að vera.``

Í frétt Morgunblaðsins frá 27. nóvember sl., samanber fylgiskjal IV, kemur fram, með leyfi forseta:

,,Í ræðu Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra á Alþingi kom fram að einungis verður staðið við tvo þriðju samkomulagsins 1. janúar 2004, og muni afgangurinn koma til framkvæmda ári síðar.

Jón Kristjánsson segir í samtali við Morgunblaðið að áætlað hafi verið að verja í þetta einum milljarði króna, og gert ráð fyrir því í fjárlögum. Þegar nefnd sem starfaði að málinu mat kostnaðinn hafi komið í ljós að það vantaði 500 milljónir upp á. ,,Það þýðir það að 1. janúar [2004] getum við ekki farið í nema tvo þriðju. Síðan er meiningin, og ég vona að það takist um það samkomulag, að 2005 komi afgangurinn til framkvæmda,`` segir Jón. Hann segir að heimildir á fjárlögum séu eingöngu fyrir einum milljarði sem samkomulagið gerði ráð fyrir. ,,Það var í samræmi við þá kostnaðaráætlun sem lá fyrir þegar það var gert.````

Af ummælum ráðherra er ljóst að hann taldi samkomulagið lúta að fyrirkomulagi sem gerði ráð fyrir 421 kr. lækkun fyrir hvert aldursbil og sem kostaði þar af leiðandi 1.528,8 millj. kr. en ekki 1.058 millj. kr. eins og fyrirliggjandi frv. hans hljóðar upp á.

Skilningur heilbr.- og trmrh. á efni samkomulagsins kom einnig í ljós í umræðum um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 á Alþingi 25. nóvember sl. en þar sagði hann m.a., með leyfi forseta:

,,Samkomulagið markaði tímamót að því leyti að þar er um breytt kerfi að ræða. Eins og hv. þm. gat um vinnur nefnd að útfærslu þessa samkomulags og mun væntanlega ljúka því verki á næstu dögum. Miðað við þær heimildir sem ég hef þarf hins vegar að áfangaskipta þessu samkomulagi. En það stendur ekki til annað en að standa við það eins og það stendur. Hins vegar gæti þurft að áfangaskipta því þannig að fyrsti áfangi tæki gildi 1. jan. 2004, eins og stendur í samkomulaginu, og síðan verði framhaldið fært í lög og menn meti stöðuna þegar líður á árið í ljósi reynslunnar og hvernig menn uppfylli samkomulagið.``

Það er því ljóst að ráðherra lítur svo á að hann sé að framfylgja samkomulaginu í áföngum án þess að um áfangaskiptinguna hefði verið samið. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins kom skýrt fram að hækkun samkvæmt samkomulaginu skyldi koma til framkvæmda 1. janúar 2004. Það er hins vegar svikið með frv.

Á fundi heilbr.- og trmn. var óskað eftir að fá tillögur starfshóps ráðuneytisins til þess að sjá hvað var haft til hliðsjónar við samningu frv. Þar sögðu embættismenn ráðuneytisins að ekki hefðu verið gerðar formlegar tillögur til ráðherra vegna málsins. Það er ekki í samræmi við þær upplýsingar sem hafa komið fram í þinginu, m.a. í ræðu heilbr.- og trmrh. frá 4. desember 2003, en þar sagði hann, með leyfi forseta:

,,Varðandi það hvaða tillögur starfshópurinn sem ég skipaði í byrjun maí skilaði þá skilaði hann til mín drögum og hugmyndum. Starfshópurinn hafði hugmyndir að þessari leið sem hv. þm. lýsti hér.``

Í frv. er gert ráð fyrir að aldurstengd örorkubót verði fyrst greidd við 18 ára aldur þrátt fyrir að í 1. mgr. 12. gr. almannatryggingalaga komi fram að einstaklingar á aldrinum 16--67 ára eigi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum rétt á örorkulífeyri og stangast frv. því á við ákvæði gildandi laga. Á fundi heilbr.- og trn. kom fram að 16--17 ára öryrkjar eru allstór hópur, eða 100 piltar og 70 stúlkur. Þrátt fyrir að lögræðislögunum hafi verið breytt fyrir nokkrum árum hefur fyrirkomulagi fyrir þennan hóp ekki verið breytt í almannatryggingakerfinu. Á fundi nefndarinnar kom jafnframt fram að framkvæmdin hjá Tryggingastofnun er þannig að 16--17 ára barn sem metið hefur verið öryrki getur ásamt foreldrum sínum valið hvort það fær örorkubætur eða hvort greiddar eru umönnunarbætur til foreldra þess með því. Ekki verður séð af frv. að foreldrar og börn geti valið þessa leið. Það er alvarlegt ef það er rétt að þau séu svipt þessum möguleika.

Þegar heildarútgjöld vegna samkomulagsins eru skoðuð kemur í ljós að kostnaður ríkissjóðs vegna frv. nemur 1.050 millj. kr. en samkvæmt upphaflegu samkomulagi hefði það numið 1.528,8 millj. kr. Ef málið er skoðað nánar sést hins vegar að raunútgjöldin næmu aðeins 645 millj. Þar sem tekjuskattur er 38,54% yrðu samanlagðar tekjuskattsgreiðslur lífeyrisþeganna 405 millj. kr.

Ef staðið hefði verið við upphaflegt samkomulag og tekjuskattsgreiðslur dregnar frá hefðu raunútgjöld ríkissjóðs því orðið um 940 millj. þar sem tekjuskattur hefði orðið um 590 millj. Því verður ekki annað séð en að svigrúm ætti að vera til að standa að fullu við upphaflegt samkomulag við Öryrkjabandalag Íslands, en fulltrúar ríkisstjórnarinnar á Alþingi felldu tillögur þess efnis við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 2004.

Minni hlutinn mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali en undir þetta álit skrifa Guðrún Ögmundsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Önundur S. Björnsson og Þuríður Backman.

Herra forseti. Mig langar aðeins að bæta hér við. Í stuttu máli snýst brtt. sem liggur hér fyrir á þskj. 632 um að hafa þá skerðingarreglu sem við teljum að hafi falist í samkomulaginu, og fjölmiðlar í raun og veru staðfesta að geri það. Sú leið lækkar aldurstengda örorkubót um 421 kr. fyrir hvert árabil og sú leið mun kosta 1.528,8 millj. kr.

Herra forseti. Þetta mál snýst í mínum huga í raun um tvennt. Hið fyrra er að standa við gerða samninga. Hið seinna er almenn forgangsröðun í þágu þeirra sem minna mega sín. Í skýrslu Hagstofu Íslands um félags- og heilbrigðismál frá árinu 2003 sést að útgjöld vegna öryrkja á hvern íbúa eru minnst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Svo tölurnar séu sambærilegar eru þær birtar á jafnvirðismælikvarða eða á PPP og sýna þær að Ísland ver um þriðjungi minna til öryrkja á hvern íbúa en t.d. Danir verja til málaflokksins. Við verjum þriðjungi minna en Danir þrátt fyrir að í Danmörku sé lægra hlutfall þeirra sem eru á aldursbilinu 18--64 ára á slíkum bótum. Séu útgjöld Íslendinga vegna öryrkja borin saman við hin Norðurlöndin sést að Norðmenn verja um helmingi hærri upphæð til málaflokksins en Íslendingar, og Svíar og Finnar verja 10--20% meira en við gerum.

Við eigum að gera betur við öryrkja þessa lands og við eigum að standa við gerða samninga.