Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 10:44:57 (3151)

2003-12-11 10:44:57# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. minni hluta ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Jónínu Bjartmarz um að við þurfum að sjálfsögðu að líta til þeirra raunbóta sem um er að ræða og við þurfum að taka tillit til framreikninga á lífeyrissjóði. Ég veit ekki betur en að Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hafi tekið undir það á fundi heilbr.- og trn. að hann væri alveg til í að skoða þann möguleika hvernig framreikningur í lífeyrissjóði snertir öryrkjana. Hann hafði hugmyndir um að þetta væri ekki sérstaklega stór hópur sem nyti eins góðs og margir hafa sagt.

Ég get að sjálfsögðu tekið undir að við eigum að forgangsraða í þágu þeirra sem mest þurfa á því að halda. Við vitum að ríkissjóður er ekki ótakmörkuð auðlind. Þess vegna fagna ég því að við munum skoða í framtíðinni í heilbr.- og trn. stöðu bótaþega, hvort sem er öryrkja eða annarra bótaþega í heild sinni og hvernig raunkjör þeirra eru. Maður getur ekki annað en tekið undir þau orð.

Þetta mál snýst að sjálfsögðu um annað. Það snýst um samkomulag sem ráðherra gerði við Öryrkjabandalagið. Við höfum bent á að það samkomulag hafi verið brotið í samræmi við hvernig fjölmiðlar og aðrir hafa túlkað það. Þetta samkomulag og þetta mál snýst einnig um forgangsröðun okkar í pólitíkinni. Við í minni hlutanum teljum að svigrúm hafi verið til að standa við þetta samkomulag. Við teljum að svigrúm hafi verið til að bæta þessum 500 millj. við en ekki að áfangaskipta samkomulaginu eins og ráðherra talaði um. Við teljum að það hefði verið fullmögulegt ef pólitískur vilji hefði verið fyrir því. Svo var ekki.