Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 11:14:02 (3154)

2003-12-11 11:14:02# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[11:14]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir beindi til okkar sem sitjum í heilbr.- og trn. tilteknum spurningum. Ein spurning hennar laut að því hvort við hefðum sérstaklega skoðað það í nefndinni hvort það kæmi betur út fyrir þá sem væru 16 og 17 ára að fara á örokulífeyri með tilliti til þess að þeir nytu þá góðs af þessu frv. Enn og aftur ætla ég, herra forseti, að leitast við að leiðrétta þann misskilning sem líka gætir í nál. minni hluta heilbr.- og trn. að þeir sem eru 16 og 17 ára geti, og foreldrar þeirra, valið örorkulífeyrinn eða umönnunarbæturnar. Frv. tekur einungis til þeirra sem eru 18 ára og eldri. Þess vegna er ekkert um val fyrir þá að ræða. Þeir sem frv. tekur til eru lögráða en hvorki framfærslu- né forsjárskyldir af foreldrum sínum.

Þarna er misskilningur í nál. minni hluta heilbr.- og trn. og sama misskilnings sýnist mér gæta hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Hv. þm. vék líka að því hvers vegna væri þörf á endurskoðun í vor. Í greinargerð með frv. segir að þá sé ætlunin að meta hvernig til hafi tekist með það að koma sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Það er tilgangurinn með þessu frv., það var tilgangurinn með samþykkt ríkisstjórnarinnar að veita milljarð til þess og það var tilgangurinn með samkomulagi formanns Öryrkjabandalagsins og hæstv. heilbr.- og trmrh.

Hins vegar hefur verið upplýst í umræðunni að stór hluti þessara einstaklinga nýtur ekki neins framreiknaðs lífeyrissjóðs, hefur engar greiðslur úr lífeyrissjóði, og ég held að almennt í heilbr.- og trn. séu menn á því að það sé brýn þörf á að skoða þetta í vor og sjá hvort ekki sé sérstök ástæða til að flokka eftir þessu þá sem hafa réttinn og hina sem hafa hann ekki til að tryggja að þeir sem minnst hafa njóti mests.