Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 11:39:55 (3161)

2003-12-11 11:39:55# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[11:39]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Samkomulagið gengur út á það að allt að því tvöfalda grunnlífeyri yngstu öryrkjanna og verja til þess 1 milljarði kr. Út á annað gekk samkomulagið ekki. Útfærsluleiðin og fylgiskjalið í nefndaráliti minni hlutans lá ekki fyrir þegar samkomulagið var gert. Beðið var um útreikning á því af tileknum embættismanni í heilbrrn. en ekki sem gögn fyrir nefndina sem tók ekki til starfa fyrr en í september. Hann bað um þetta upp á sitt eindæmi til að reikna út hvað það kostaði að hafa 400 kr. hækkun á milli aldursbila. Það er sannleikurinn í málinu. Loforðið var upp á milljarð. Það var ekki búið að reikna út hvað 400 kr. á aldursbilum kostuðu þegar það var lagt fram. Síðan kom í ljós að það nam umfram þessum milljarði. Við skulum hafa það sem sannara reynist í málinu. Ég vona að hv. þm. Ögmundur Jónasson leggi við hlustirnar með það út á hvað loforðið gekk. Það voru engir kjósendur blekktir. Lofað var milljarði og það var staðið við milljarðinn til þeirra öryrkja sem yngstir eru þegar þeir verða öryrkjar.