Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 12:04:33 (3168)

2003-12-11 12:04:33# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[12:04]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Í mínum huga snýst þetta mál ekki eingöngu um kjör öryrkja heldur einnig og ekki síður um heilindi stjórnmálamanna og heilindi Framsfl. Það er athyglisvert að það er enginn framsóknarmaður í salnum og ég skil það ósköp vel að þeir skuli skammast sín fyrir þetta. (DrH: Þú ert líka bara einn úr Frjálsl.) Við erum líka heldur færri og þetta er líka frv. sem er á forræði framsóknarmanna og þeir skammast sín svo fyrir það að þeir láta ekki einu sinni sjá sig í salnum til að reyna að verja það. Hv. þm. Jónína Bjartmarz reyndi það áðan og er nú flúin úr salnum. Mér finnst þetta vera athyglisvert. Hér er verið að ræða kjör öryrkja og framsóknarmenn sýna þessu ekki meiri áhuga en svo að þeir láta ekki sjá sig hérna.

Auðvitað eiga orð manna að standa þó svo framsóknarmenn séu farnir að trúa öðru og hafi annað í heiðri þessa dagana. Þeir lofa auknum byggðakvótum en nú stendur til að skerða þá, lofa gerð ganga, Héðinsfjarðarganga. Það var bara fyrir kosningar og búið eftir kosningar. Þeir lofuðu að gera sérstaklega vel við húskaupendur, lofuðu 90% lánum en síðar í dag stendur til að skerða vaxtabætur hjá því fólki sem þeir lofuðu 90% lánum. Þeir lofuðu að lækka skatta en nú er verið að hækka skatta. Það er verið að hækka skatta og boða enn meiri skattahækkanir, nú síðast á sjómenn. En steininn tekur þó úr nú og ég skil vel að framsóknarmenn láti ekki sjá sig. Nú eru þeir að svíkja handsalaðan samning við öryrkja og málið snýst einfaldlega um það að hafa af öryrkjum 500 millj. kr. sem búið var að lofa.

Ráðherra Framsfl. hafði skreytt sig með formanni Öryrkjabandalagsins og látið birta myndir af sér í fjölmiðlum, ekki bara einum, mörgum, og hann handsalaði samning á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu og í frétt af þessum fræga fundi kemur fram að þeir skilja samninginn með sama hætti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. skildi samninginn með nákvæmlega sama hætti og Garðar Sverrisson. Það er að hækkun eða lækkun nemi rúmum 400 kr. fyrir hvert aldursskeið á bilinu 18--67 ára. Þess ber að geta að formaður Öryrkjabandalagsins, Garðar Sverrisson, hefur ekki breytt í neinu sínum skilningi á þessum orðum og loforðum sem gefin voru í Þjóðmenningarhúsinu en það hefur hins vegar hæstv. heilbr.- og trmrh. gert. Hann skilur þetta með allt öðrum hætti núna.

Öryrkjabandalagið hefur reynt að fá ríkisstjórnina ofan af því að svíkja samkomulagið en aðeins uppskorið dónaskap af hálfu varaformanns Framsfl., hæstv. landbrh. Það er athyglisvert að framsóknarmenn gátu skreytt sig með formanni Öryrkjabandalagsins fyrir kosningar en eftir kosningar, hvað gera þeir þá? Þeir senda þeim óviðurkvæmileg skeyti úr þingsölum. Hvar eru þessi slagorð núna: ,,Velferð fyrir alla`` og ,,Manngildi ofar auðgildi``? Það er gefið lítið fyrir þau. Það hefur komið í ljós að heilbr.- og trmrn. vissi nákvæmlega hvað samningur hæstv. ráðherra og forsvarsmanna Öryrkjabandalagsins kostaði. Það hefur margoft komið fram í dag. Það kom fram í kostnaðarmati frá 10. apríl, mánuði fyrir kosningar. Hvers vegna kom það aldrei fram í umræðunni fyrir kosningar að þetta kostaði mun meira en ríkisstjórnin gat staðið við?

Það er mín skoðun að ráðherra sem handsalar samning hátíðlega og skreytir sig með honum í kosningabaráttu eigi að segja af sér ef hann svíkur samkomulagið. Mér finnst ekki að ráðherra sem svíkur handsalað samkomulag við öryrkja eigi að gegna áfram embætti. Ég tala nú ekki um ef það kemur í ljós á næstu missirum að hann verði dæmdur af dómstólum landsins fyrir að efna ekki samkomulagið við öryrkja, þá finnst mér að hann eigi skilyrðislaust að segja af sér.