Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 14:48:15 (3176)

2003-12-11 14:48:15# 130. lþ. 48.7 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að ítreka þá spurningu hvort það geti verið rétt að hér auki einstaka menn lífeyrisrétt sinn, lífeyrisrétt eins manns, um allt að 100 millj. kr. Getur það verið?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þm. Halldór Blöndal hvort hann telji að það geti gengið að Alþingi skili þessu frv. sem lögum frá Alþingi án þess að fyrir liggi það kostnaðarmat sem ég spurði eftir.

Í þriðja lagi spyr ég hvort hv. þm. Halldór Blöndal, sem jafnframt er forseti Alþingis, teldi ekki --- allra vegna sem sitja á Alþingi og í ríkisstjórn --- að á því færi betur að ákvörðun um þessi efni væri falin öðrum aðilum en okkur sjálfum, svo sem eins og Kjaradómi.