Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 15:47:11 (3189)

2003-12-11 15:47:11# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði á fundi nefndarinnar að væri í mínum huga einhver vafi á að þetta ákvæði mundi brjóta stjórnarskrána þá skyldi stjórnarskráin njóta vafans. Þannig var með fyrra ákvæðið. Ég tel það mjög virðingarvert að fjmrn. og nefndin öll féllst á að breyta skyldi því ákvæði sem menn töldu áður stangast á við stjórnarskrána og leggja til nýtt ákvæði. Það ákvæði er í samræmi við álit beggja lögfræðinganna.

Reyndar segir annar þeirra --- ef ég ætti að gefa svona álit þá mundi ég segja nákvæmlega það sama --- að það sé ekki unnt að útiloka að ákvæðið brjóti stjórnarskrána vegna þeirra breytinga sem stöðugt er verið að gera á stjórnarskránni með túlkunum Hæstaréttar. Ég vil benda á að þetta frv. var lagt fram áður en Hæstiréttur felldi dóm 16. október sem breytti skoðun manna á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þess vegna er ekkert skrýtið að hann láti fylgja varnaðarorð til að verja sig til framtíðar.

Hvers vegna leggjum við þetta fram? Við leggjum þetta fram til að sýna að fjárlögin séu með miklum afgangi og það verði ekki hvikað frá þeirri stefnu að halda uppi aga í fjárlögum. Það eru skilaboð til atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar, að fjárlögin eigi að vera með afgangi og stuðla að jöfnuði og stöðugleika í þjóðfélaginu. Það kemur öllum til góða og ekki síst þeim sem njóta þessara vaxtabóta.