Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 15:51:02 (3191)

2003-12-11 15:51:02# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Frú forseti. Ég tiltók áðan í ræðu minni nokkur dæmi þar sem ég tel að stjórnarskráin sé frekar brotin en með þessu ákvæði. Ég tel þannig að skattlagning vaxtabóta um 10% á almennan hátt, hjá nokkuð stórum hóp, sé minna brot á stjórnarskránni en að skattleggja t.d. leigutekjur og vaxtatekjur eða tekjur manna sem nýbúnir eru að segja upp starfi sínu í bænum og farnir að vinna við Kárahnjúkavirkjun fyrir hærri laun í trausti þess að hátekjuskatturinn félli niður. Svo er hann bara settur á aftur eftir tvær vikur.

Ég tel að ef menn ætla að túlka stjórnarskrána svona þröngt sé ekki hægt að hækka neina skatta til framtíðar, ekki fyrr en eftir 10--20 ár. Það væri ekki hægt að hækka fjármagnstekjuskatt fyrr en eftir 10--20 ár af því að fjöldi samninga er bundinn í 10--20 ár með vexti. Ég hugsa að hv. þingmenn Samf., sem vilja t.d. hækka fjármagnstekjuskatt, yrðu heldur óhressir með það ef þeir mættu það ekki.

Ég tel nefnilega að orð lögfræðingsins í seinna lögfræði\-álitinu séu ekkert annað en vísun til þess að Hæstiréttur hefur á undanförnum árum breytt grundvelli þess sem við vinnum með, þ.e. stjórnarskránni. Hæstiréttur hefur ítrekað breytt skoðun manna á stjórnarskránni og áhrifum hennar. Það er eins og maður standi á ísjaka sem ruggar og viti í rauninni ekki hvert hann stefnir. Þannig er staðan í dag. Ef menn ætla að gera ráð fyrir öllum möguleikum sem hugsanlega verða í dómum Hæstaréttar þá er ekki víst að menn geti lagt fram nein frumvörp um eitt eða neitt.

Ég tel að líkurnar séu afskaplega litlar þó að prófessorar við háskólann þurfi að setja slíka fyrirvara í álit sitt.