Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 15:53:10 (3192)

2003-12-11 15:53:10# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur verið rakið kom fram við meðferð málsins í hv. efh.- og viðskn. að fyrstu hugmyndir ríkisstjórnarinnar stóðust ekki ákvæði stjórnarskrárinnar að mati hæfustu manna. Þær hugmyndir sem hér eru til meðferðar hafa verið metnar á þann veg að enginn treystir sér til að fullyrða að þær standist ákvæði stjórnarskrárinnar.

Mig langaði að nefna, vegna orða hv. þm. Péturs Blöndals, að ég held að við eigum ekki að ræða þetta á grunni þess hvort um meira eða minna brot gegn stjórnarskránni sé að ræða. Annaðhvort standast hugmyndir ákvæði stjórnarskrárinnar eða ekki. Það er einfaldlega þannig. Það sem hér er umdeilt er hvort heimilt sé að skerða bætur afturvirkt á þann hátt sem hugmyndin er að gera.

Það kom einnig fram hjá lögmönnum, prófessor og dósent, að ef komið væri fram yfir áramót væri ljóst að ekki mætti skerða þetta afturvirkt. Ríkisstjórnin er að skáka í því skjólinu að enn séu 20 dagar eftir af árinu og í því ljósi sé þeim hugsanlega heimilt að skerða þessar bætur afturvirkt eins og hér er lagt til.

Mig langaði að spyrja hv. þm. hvort ekki hefði verið eðlilegra að leita annarra leiða við að ná þeim markmiðum, þ.e. sparnaði í ríkissjóði, en að tefla á tæpasta vað gagnvart stjórnarskránni. Ég hefði sjálfur talið að ríkisstjórnin hlyti að vera búin að fá nóg af málsóknum hinna og þessara í samfélaginu vegna meintra brota á stjórnarskránni.