Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 15:57:29 (3194)

2003-12-11 15:57:29# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við urðum vör við þennan misskilning hv. þm. Péturs Blöndals í nefndinni þar sem hann ruglar saman skattálögum sem eru ýmist framvirkar eða afturvirkar.

En það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins í þessu er einfaldlega sá að stjórnarskráin hefur það hlutverk að halda aftur af valdhöfunum gagnvart fólkinu í landinu, að verja fólkið í landinu. Nú hafa a.m.k. í fjórgang fallið dómar þar sem núv. ríkisstjórn hefur verið dæmd, a.m.k. fjórum sinnum, fyrir að ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Í þessu tilviki er farið á ystu nöf. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það hvort þetta standist eður ei en það er ljóst að allir eru sammála um að farið sé á ystu nöf.

Óhjákvæmilega vaknar sú spurning: Hvers vegna er farið á ystu nöf gagnvart stjórnarskránni í stað þess að leita annarra leiða? Svör hv. þm. eru fyrst og fremst þau að vonandi haldi þetta. Það er fyrst og fremst það sem hv. þm. hefur sagt í ræðustól. Vonandi að þetta haldi. Það eru þau svör sem við fáum við fyrirspurnum okkar sem eru alveg í samræmi við niðurstöðu þeirra lögfræðinga sem komu fyrir nefndina.

Eftir stendur spurningin: Hvers vegna leitar ríkisstjórnin ekki annarra leiða til að ná þeirri niðurstöðu sem hún vill ná í fjárlögum en að tefla á tæpasta vað gagnvart ákvæðum stjórnarskrárinnar? Það er sú spurning sem hv. þm. á að svara en ekki að snúa út úr eins og hann gerði í svari sínu áðan.