Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 16:52:57 (3197)

2003-12-11 16:52:57# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ýmislegt við ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að athuga.

Í fyrsta lagi varðandi það að fjölskylduráð hafi ekki fengið þetta til umsagnar. Þannig er að hver einasti þingmaður hefði getað lagt til að það fengi frv. til umsagnar, það er opið. Þingmenn bæta iðulega við aðilum til umsagnar. Ég ætla að minna hv. þm. á það í framtíðinni að senda fjölskylduráði frumvörp til umsagnar.

Hv. þm. gat um að sú hugsun sem væri í frv. og á að taka gildi í ársbyrjun 2005 væri íþyngjandi. Hún er aðallega íþyngjandi fyrir hátekjufólk vegna þess að hátekjufólk kaupir stórar eignir og fær þar af leiðandi bankalán með hærri vöxtum og borgar þar af leiðandi hærri vexti sem hlutfall af skuldum. Það er aðallega hátekjufólk sem hitt verður fyrir með þeirri reglu.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um hugmynd mína um hátekjuskattinn vil ég segja þetta: Segjum að maður nokkur ákveði að hefja vinnu uppi í Kárahnjúkavirkjun eða hugsar um það með fjölskyldu sinni. Konan hans segir: Þú getur farið þangað af því að hátekjuskatturinn fellur niður, þú ert með 50 þús. kr. meira á mánuði. Hann ákveður þetta í byrjun desember að ráða sig í vinnu við Kárahnjúka, fjarri fjölskyldu, fjarri skemmtunum og öðru slíku í bænum. Síðan er allt í einu settur á hann hátekjuskattur þannig að honum er refsað fyrir þá ákvörðun sem hann áður hafði tekið. Hann þarf að borga hátekjuskatt. Ef það sem við erum að ræða hér er óheimilt þá er þetta enn frekar óheimilt. Ég tel reyndar að hvort tveggja sé í samræmi við stjórnarskrána en ég bendi hv. þm. á að það er ýmislegt sem ekki má ef ekki má gera það sem við leggjum til í þessu frv. með þessari brtt.