Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 16:57:19 (3199)

2003-12-11 16:57:19# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að biðja hv. þm. afsökunar varðandi fjölskylduráð og misskilning í því sambandi. En það vill svo til að þegar ég er búinn að hlusta á ræðu í 10--15 mínútur þá dofnar athygli mín þvílíkt að ég hætti að taka eftir. Þannig er með flest fólk. Þess vegna eru svona langar ræður ekkert voðalega skilvirkar.

Varðandi hátekjuskattinn. Vissulega lofuðum við að afnema hann en við fengum bara ekki meiri hluta á þingi. Þess vegna urðum við að sætta okkur við að fara í samsteypustjórn og sætta okkur við það sem sá flokkur sem fór í samsteypustjórn með okkur vildi og hvaða stefnu hann hafði. Málamiðlunin varð sú að skatturinn yrði felldur niður á tveimur árum, stiglækkandi. Það er svona ákveðið skref í þá átt að fella þetta alveg niður.

En talandi um hátekjuskattinn þá tekur fólk ákvarðanir í fortíðinni sem eru svo skattlagðar í framtíðinni, t.d. um að ráða sig á skip eða að ráða sig við Kárahnjúkavirkjun. Sú ákvörðun er gerð ómöguleg með skattlagningu með nákvæmlega sömu rökum og hv. þm. er að segja að þessi breyting brjóti stjórnarskrána. Ég tel að hvorugt geri það.

Ég vil benda á eftirfarandi sem Eiríkur Tómasson nefnir í áliti sínu, með leyfi forseta:

,,Jafnframt hafa þeir, sem hlut eiga að máli, lítið svigrúm til þess að bregðast við skerðingunni, sbr. ummæli Hæstaréttar í dómi sínum 24. október 2002, þar sem vísað er til þess að sá, sem taldi á sér brotinn rétt vegna breytinga á lífeyrisréttindum, hafi haft ,,alla aðstöðu og forsendur til að kynna sér fyrirhugaðar breytingar og taka afstöðu til þeirra.````

Eitthvað liggur fyrir og menn eru búnir að taka ákvarðanir í fortíðinni, nákvæmlega eins og maðurinn sem fer í Kárahnjúkavirkjun. Hann var búinn að gera ráð fyrir því að hann fengi þessi laun í janúar, febrúar og mars með þeim sköttum sem eru í gildi. Svo er sköttunum breytt og allt í einu kemur hátekjuskattur.

Það sem ég er að segja er að þeim rökum sem hv. þm. beitir á bætur má nákvæmlega eins beita á aðrar tekjur. Með sömu rökum má í raun enga skatta leggja á, ekki nema með mjög löngum fyrirvara, með eins til tíu ára fyrirvara.