Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 17:02:11 (3201)

2003-12-11 17:02:11# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og ég tala fyrir áliti 2. minni hluta.

Eins og fram hefur komið við umræðuna og í grg. sem fylgir frv. er þar tekið á fjórum meginþáttum auk minni háttar kerfisbreytinga sem varða skattheimtu og framkvæmd hennar og samstaða var um.

Efnisþættirnir eru í fyrsta lagi að viðmiðunarfjárhæðir laganna, þ.e. fjárhæðir vegna tekjuskatts, eignarskatts, barnabóta og vaxtabóta, eru hækkaðar samkvæmt verðlagsforsendum fjárlagafrv. fyrir komandi ár eða um 2,5%. Nauðsynlegt er að þær fjárhæðir komi til endurskoðunar með hliðsjón af kjarasamningum því að eðlilegt er að þessar bætur taki mið af umsömdum launahækkunum en að lágmarki hækki þær þó aldrei minna en almennar verðlagsbreytingar.

Í öðru lagi var upphaflega gert ráð fyrir því í frumvarpinu að útreikningi vaxtabóta yrði breytt á þann veg að hlutfall vaxtagjalda af skuldum til útreiknings á vaxtabótum átti að breytast úr 7% í 5,5%. Þetta er sá þáttur frumvarpsins sem hefur vakið mestar deilur og framkallað mesta gagnrýni.

Fyrir það fyrsta kom fram gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni og vísa ég þar í álitsgerðir heildarsamtaka launafólks, bæði ASÍ og BSRB, sem í álitsgerð sinni studdist við ályktun nýafstaðins þings bandalagsins. Þá er rétt að vísa í eindregin mótmæli fjölskylduráðs gegn skerðingu vaxtabóta.

Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Fram kemur í frumvarpinu að lagt er til að útreikningum vaxtabóta verði breytt með það að markmiði að draga úr frekari skuldsetningu heimilanna í landinu. Fjölskylduráð telur að þessi áform, þ.e. að draga úr vaxtabótum, muni íþyngja mörgum heimilum sem hafi reiknað með a.m.k. jafnháum vaxtabótum og þegar það gerði húsnæðiskaup sín. Fjölskylduráð telur að stjórnvöld eigi að setja sér þau almennu markmið gagnvart fjölskyldufólki, að fjölskyldur geti gert langtímaáætlanir um fjármögnun húsnæðiskostnaðar. Fjölskylduráð telur mjög óeðlilegt að kynna með þessum hætti breytingar á skattstofnum og útreikningum skatta sem geta með þeim hætti kollvarpað áætlunum fólks í húsnæðismálum og þannig stefnt fjárhagslegri stöðu þeirra í mikinn vanda. Þá bendir fjölskylduráð á að þessi breyting getur íþyngt verulega fjölskyldufólki með þunga greiðslubyrði og háar skuldir. Fjölskylduráð telur að þau markmið sem stjórnvöld hafa kynnt um hækkun lána til húsnæðismála fari ekki saman við lækkun vaxtabóta. Fjölskylduráð mælir því gegn þessari breytingu í frumvarpinu.``

Þetta lýtur að almennri gagnrýni á skerðingu á vaxtabótum. Á hinn bóginn var gagnrýnt með hvaða hætti þetta skyldi gerast, þ.e. að færa hlutfall vaxtagjalda af skuldum til útreiknings á vaxtabótum úr 7% í 5,5%. Þar var bent á að skerðingin kæmi til framkvæmda með afturvirkum hætti, þ.e. við álagningu ársins 2004 vegna vaxtagjalda liðins árs, ársins 2003. Í efh.- og viðskn. komu upp efasemdir um að afturvirkt ákvæði í skattalögum stæðist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Tveir fulltrúar í nefndinni, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, óskuðu formlega eftir að leitað yrði álits hjá Lagastofnun Háskóla Íslands um stjórnarskrárleg og lagaleg álitaefni sem tengdust frumvarpinu og var þetta í samræmi við vilja fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd.

Tvö álit bárust frá Háskóla Íslands, annars vegar frá Skúla Magnússyni, dósent við lagadeild háskólans. Hann skilaði áliti sínu til fjmrn. 28. nóvember og síðar barst álitsgerð frá Eiríki Tómassyni, prófessor í lögum við Háskóla Íslands.

Frá því er skemmst að segja að álit Skúla Magnússonar um þessa fyrstu tillögu sem fyrir lá var á þann veg að hætta væri á því að lagabreytingin, ef hún kæmi til framkvæmda, stæðist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Meginhugsunin var sú að þar sem um væri að ræða afturvirka ráðstöfun, sem tæki til takamarkaðs hóps, þá kynni þetta að verða túlkað fyrir dómstólum sem upptaka á eign, eignarupptaka.

Nú voru góð ráð dýr og ný tillaga kom fram frá ríkisstjórninni. Í stað þess að skerða vaxtabætur hjá afmörkuðum hópi var brugðið á það ráð að ná fram þeim niðurskurði, þeim sparnaði í vaxtabótakerfinu sem nemur 600 millj. kr., með öðrum hætti og almennari. Fram kom tillaga um að skerða vaxtabætur allra sem þeirra nytu um 10%, eða eins og segir í brtt. stjórnarmeirihlutans, með leyfi forseta:

,,Vaxtabætur vegna vaxtagjalda á árinu 2003 skulu vera 90% af vaxtabótum útreiknuðum skv. B-lið 68. gr. laganna.``

Það var gagnvart þessu sem Eiríkur Tómasson, prófessor í lögum, beindi sjónum sínum þegar hann grandskoðaði lögin og tillögur stjórnarinnar. Hann komst að þeirri almennu niðurstöðu, þeirri meginniðurstöðu að slík breyting á lögunum mundi standast stjórnarskrá, það var hans almenna sjónarmið. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér fannst þau rök sem færð voru fram þar að lútandi vera allsannfærandi.

Hins vegar er á það að líta að í niðurlagi greinargerðar sinnar setur hann ákveðinn fyrirvara hvað þetta varðar.

Hann segir, með leyfi forseta:

,,Þó er ekki unnt að útiloka að dómstólarnir telji að með þeim hætti að skerða vaxtabætur afturvirkt með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir, sé svo vegið að réttaröryggi þeirra, sem fyrir skerðingunni verða, að hún brjóti í bága við stjórnarskrána.``

Ég sé ástæðu til að vekja sérstaklega athygli á þeim varnaðarorðum sem koma fram í álitsgerð lagaprófessorsins og legg áherslu á það, þannig að farið sé rétt með áherslur hans. Hann telur lagabreytinguna standast stjórnarskrá en setur þennan ákveðna fyrirvara. Mér hefur fundist þessi rökstuðningur vera allsannfærandi.

Hins vegar finnst mér það sjónarmið líka sannfærandi --- og það er hlutur sem Alþingi þarf að vega og meta --- að þegar vafi leikur á að lög standist stjórnarskrá beri að láta stjórnarskrá njóta vafans. Menn þurfa að velta þessu fyrir sér.

Andstaða mín við þessi lög eða þennan hluta laganna byggist hins vegar fyrst og fremst á niðurskurði á vaxtabótunum. Ég tel vissulega koma til álita að taka vaxtabótakerfið allt til uppstokkunar og endurskoðunar. Ég set ekki loku fyrir að það kunni að verða niðurstaða að vaxtabætur verði skertar en þá í samhengi við aðrar skattkerfisbreytingar sem tryggi láglauna- og millitekjuhópum sem eru að koma sér upp húsnæði eða leigja húsnæði, sambærileg kjör eða betri en þeir áður hafa haft. Þetta er afstaða mín til þessa þáttar frv., þ.e. skerðingar á vaxtabótum. Ég er andvígur þeim, ég er andvígur skerðingu upp á 600 milljónir og vísa til þess að ekki er ráðist í aðrar skattkerfisbreytingar sem kæmu þá til móts við láglauna- og millitekjuhópa í þjóðfélaginu.

Þetta var annar stóri efnisþátturinn í frv., fyrsti var viðmiðunarfjárhæðirnar, annar var skerðingin á vaxtabótunum. Í þriðja lagi er um það að ræða að ákvæði laganna um alþjóðleg viðskiptafélög verði felld úr skattalögunum. Jafnframt var boðað frv. frá viðskrh. um afnám laga um alþjóðleg viðskiptafélög. Frumvarpið er reyndar á dagskrá þingsins og það frv. styð ég heils hugar að öðru leyti en því að ég er mjög ósáttur við að dagsetningu um gildistöku þeirra laga er frestað frá því sem upphaflega er ráð fyrir gert, frá 1. janúar nk. til 1. mars. Ég hef ekki fundið nein sannfærandi rök fyrir því að fallast eigi á slíka frestun og að því lýtur fyrirvari minn í því máli og mun ég gera grein fyrir honum þegar þar að kemur.

[17:15]

Hvað varðar þessi viðskiptafélög er þetta tilraunastarfsemi sem er unnin í samkrulli við Verslunarráð Íslands, ég vek athygli forseta þingsins á því að þar er um að ræða samstarfsverkefni Verslunarráðsins og viðskrn. sem hefur kostað íslenska skattgreiðendur tugi milljóna króna, skilað litlum sem engum árangri, kannski sem betur fer, því að um er að ræða að mínu mati ósiðlega tilraun til þess sem kallað er andfélagsleg skattasamkeppni. Þar vísa ég í tilraunir sem unnar eru á vegum Efnahags- og framfarastofnunar OECD. (Gripið fram í.) Já, andfélagsleg skattasamkeppni, þar sem ríki keppast um að fá fyrirtæki til sín með því að skapa þeim skattaskjól og hættan er sú að ef öll ríki eru knúin út á þá braut muni það til lengri tíma litið grafa undan velferðarþjónustunni sem sköttum er ætlað að fjármagna. (Gripið fram í.) Nú heyrði ég ekki frammíkall hv. formanns efh.- og viðskn. (PHB: Minnka BSRB.) Minnka BSRB, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. --- Það muni grafa undan velferðarsamfélaginu. Þetta er tilraun eða verkefni sem unnið er á vegum OECD að reyna að koma í veg fyrir slíkt, koma í veg fyrir þessi skattaskjól og undanskotssvæði hvort sem þau eru á Gíbraltar, Ermarsundinu, Karíbahafi eða annars staðar. Reyndar Sviss og Lúxemborg líka sem hafa verið gagnrýnd af hálfu þessa verkefnis. Það hefur verið viðurkennt af hálfu hæstv. viðskrh. þegar ég hef tekið slíkt upp á þingi og flutt um það þingmál, að gagnrýni á alþjóðleg viðskiptafélög hafi komið fram úr þeim búðum. Ég fagna því þeim þætti frv. að leggja eigi þessi alþjóðlegu viskiptafélög af.

Í fjórða lagi, og vísa ég þá til fjórða meginþáttar frv., er gert ráð fyrir að framlengja sérstakan tekjuskatt sem í daglegu tali er jafnan vísað til sem hátekjuskatts. Það á að framlengja þennan skatt um tvö ár. Því ber að fagna enda er þetta í samræmi við þau markmið sem æskilegt er að skattalög byggi á, þ.e. að þau séu til tekjujöfnunar ekki síður en til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur jafnan verið opin fyrir þeirri hugmynd að taka skattkerfið allt til endurskoðunar en þá skuli það gert með það að markmiði að gera kerfið réttlátara og markvissara, en þó jafnan með það að leiðarljósi að tryggja nauðsynlega fjármuni til að standa straum af kostnaði við velferðarþjónustu landsmanna.

Hvað þennan þátt frv. snertir er ég honum sammála. Ég er sammála þeim þætti frv. að framlengja hinn svokallaða hátekjuskatt en legg áherslu á að það kann vel að renna upp sá tími að við leggjum það sérstaka þrep af en þá verði það gert í sambandi við heildarendurskoðun á skattalöggjöfinni sem gengi út á að gera skattkerfið allt markvissara, gera skattheimtuna markvissari, gera kerfið auðveldara í framkvæmd en jafnframt stuðla að hinum tveimur þáttunum sem ég tel vera mikilvægast af öllu, að stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu og tryggja og treysta tekjustofna hins opinbera.

Okkur voru í dag að berast enn fleiri álitsgerðir og mótmæli gegn frumvarpinu. Alþýðusamband Íslands hefur sent umsögn um brtt. stjórnarmeirihlutans varðandi vaxtabæturnar. Áður hafði Alþýðusambandið mótmælt prósentu- eða hlutfallsbreytingunni úr 7% í 5,5% á niðurskurði vaxtabótanna og nú ganga þessi síðustu mótmæli eða álitsgerð Alþýðusambandsins út á að andmæla einnig 10% flötum niðurskurði á vaxtabótunum. Reyndar er talað um þetta sem skattahækkun. Ég hefði haft annan hátt á og talað um þetta sem skerðingu á stuðningi en ekki skattahækkun, hefði nálgast málið frá þeirri hlið en engu að síður eru menn að sjálfsögðu að tala um sama hlutinn.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni til frv. Í örfáum setningum byggir gagnrýni mín á frv. á því að viðmiðunarupphæðir bótafjárupphæða hækka einvörðungu í tengslum við fjárlög. Ég tel sýnt að þær upphæðir þurfi að taka til endurskoðunar með hliðsjón af kjarasamningum því að ég tel að þessar upphæðir eigi að taka mið af almennum umsömdum hækkunum.

Í öðru lagi mótmæli ég niðurskurði á vaxtabótum um 600 millj. kr. Ég geri það fyrst og fremst á þeirri forsendu að um er að ræða skerðingu á kjörum en vek þó athygli á þeim fyrirvara sem lögspekingar sem leitað var til, bæði af hálfu fjmrn. og einnig af hálfu efh.- og viðskn., hafa gert. Annar var fenginn til af hálfu ráðuneytisins, hinn af hálfu nefndarinnar og vek ég athygli á varnaðarorðum sem fram hafa komið frá þessum aðilum.

Í þriðja lagi er ég því hlynntur að hin alþjóðlegu viðskiptafélög verði afnumin eða heimildir til þeirra verði numdar brott úr lögum.

Í fjórða lagi er ég því hlynntur að svokallaður hátekjuskattur, sérstakur tekjuskattur eins og hann nefnist á lagamáli, skuli numinn brott úr lögum.