Alþjóðleg viðskiptafélög

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 17:40:06 (3206)

2003-12-11 17:40:06# 130. lþ. 48.9 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv. 133/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[17:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri engar athugasemdir við mál hv. þm. Birgis Ármannssonar. Mér finnst ekkert skrýtið að Verslunarráðið skyldi nýta sér þetta færi fyrst það á annað borð gafst. Ég geri heldur engar athugasemdir við það að verkefni af þessu tagi sé, eins og hann nefnir það ,,útvistað`` á góðri íslensku, úti í bæ. En það sem ég geri auðvitað athugasemdir við er að þessum peningum var afskaplega illa varið. Það kom mjög snemma í ljós að þessi vinna skilaði engu. Það má vel verja það að fyrst að menn á annað borð lögðu í þessa sjóferð árið 1999 þá hefði verið varið fjármunum til kynningar og hugsanlega árið 2000. En það kom bara í ljós að þetta skilaði engum árangri og ég held að það hljóti að mega draga þá ályktun að á árunum þar á eftir var þessu bókstaflega á glæ kastað.

Það sem skiptir langmestu máli, virðulegi forseti, er það að árinu áður en þessi lög voru samþykkt þá samþykkti ráðherraráð OECD skýrslu um aðgerðir sem áttu að miða að því að stemma stigu við opnun skattaglufa af þessu tagi. En ríkisstjórn Íslands lét það eins og vind um eyru þjóta, samþykkti lög sem voru klárlega í andstöðu við þessa skýrslu OECD og tilmæli. Það var ekki fyrr en það vofði yfir sú hótun að Ísland yrði sett á svartan lista sem þessi fáránlegu lög voru afnumin, eins og við erum að gera hér.

Virðulegi forseti. Ég er alveg sannfærður um það að þeir ágætu menn sem voru hjá Verslunarráði Íslands hafa ferðast vítt og breitt um heiminn á kostnað ríkisins til þess að kynna þessi lög. En það skilaði engum árangri. (Forseti hringir.)

Ég hef lokið máli mínu þó að það sé enn þá tími eftir samkvæmt klukkunni.